Lífið

Fékk silfrið á Mr. Gay Europe

Ásamt sigurvegaranum Magnús, til hægri, ásamt spænska þátttakandanum sem var krýndur Mr. Gay Europe 2009. Magnús hafnaði í öðru sæti.
Ásamt sigurvegaranum Magnús, til hægri, ásamt spænska þátttakandanum sem var krýndur Mr. Gay Europe 2009. Magnús hafnaði í öðru sæti.

Magnús Jónsson, 25 ára gamall nemi í Kaupmannahöfn, hafnaði í öðru sæti í árlegri Mr. Gay Europe-keppni sem að þessu sinni var haldin í Osló. Sætið tryggir Magnúsi keppnisrétt í Mr. Gay World sem einnig verður í Osló í febrúar á næsta ári.

„Þetta var alveg rosalega skemmtilegt, við vorum 24 keppendur frá jafnmörgum löndum og þetta var mikil upplifun, ég lærði heilmikið af þessu,“ segir Magnús en skipuleggjendur keppninnar hringdu í Magnús og báðu hann um að taka þátt.

„Ég sendi inn fyrirspurn fyrir fimm árum og óskaði eftir því að fá að vera með. Þegar svo kallið kom þá var ég að byrja í sambúð og gaf þetta frá mér. En þeir mundu eftir mér og vildu fá mig enda hafði enginn Íslendingur skráð sig til leiks,“ segir Magnús en hann mun nú ferðast um hin Norðurlöndin og fræða fólk um öruggt kynlíf og samkynhneigð.

Magnús á íslenska móður en föður frá Mexíkó þar sem kaþólsk trú hefur sterk ítök og eru samkynhneigðir oft litnir hornauga af þeim sökum. Engu að síður hefur fjölskylda Magnúsar stutt dyggilega við bakið á honum og hún var ánægð með árangurinn.

„Já, bróðir pabba lést langt fyrir aldur fram úr eyðni, hann var hommi og fékk því litla hjálp á þeim tíma. Hann er eiginlega aðalástæðan fyrir því að ég vildi gera þetta, ég vil vera góð fyrirmynd, tala um öruggt kynlíf fyrir opnum tjöldum og heiðra þannig minningu frænda míns,“ segir Magnús og upplýsir jafnframt að fyrir næstu keppni verði haldin undankeppni hér á Íslandi.-fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.