Enski boltinn

Man City bauð í Benzema

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Karim Benzema í leik með Lyon.
Karim Benzema í leik með Lyon. Nordic Photos / AFP
Jean Michel Aulas, forseti Lyon, hefur staðfest að Manchester City hafi lagt fram tilboð í Karim Benzema í janúar síðastliðnum.

Benzema er ein stærsta stjarnan í frönskum fótbolta og hefur verið orðaður við stórlið víða um Evrópu. Hins vegar hefur Benzema hingað til kosið að vera áfram í Frakklandi og vill lítið ræða um framtíð sína.

„Ég er hjá frábæru félagi eins og er en við skulum sjá til hvernig staðan er eftir leikina gegn Barcelona," sagði Benzema en Lyon mætir Börsungum í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Barcelona, Real Madrid og Manchester United eru að fylgjast náið með gangi mála hjá Benzema en Aulas sagði að City hafi lagt fram formlegt tilboð sem hafi verið „risastórt".

Hann viðurkenndi þó að félagið þyrfti að selja Benzema einhvern tímann.

„Sum tækifæri fær maður ekki tvívegis. Það eru kaupendur sem hafa áhuga en þetta verður að fara fram á réttum tímapunkti," sagði Aulas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×