Erlent

Polanski tapaði fyrstu lotunni

Roman Polanski Stjórnvöld í Sviss telja miklar líkur á að hann flýi verði hann látinn laus áður en úrskurður um framsal er kveðinn upp.nordicphotos/AFP
Roman Polanski Stjórnvöld í Sviss telja miklar líkur á að hann flýi verði hann látinn laus áður en úrskurður um framsal er kveðinn upp.nordicphotos/AFP

Pólski kvikmyndaleikstjórinn Roman Polanski varð að láta í minni pokann í fyrstu lotu baráttu sinnar við svissneska réttarkerfið þegar dómsmálaráðuneyti landsins hafnaði beiðni hans um lausn úr varðhaldi.

Polanski hefur þegar setið í fangelsi í Sviss í þrettán daga og losnar varla á næstunni. Stjórnvöld telja miklar líkur á því að hann flýi land verði hann látinn laus meðan úrskurðar í framsalsmáli hans er beðið.

„Hann gæti auðveldlega látið sig hverfa,“ sagði Peter Cosandey, fyrrverandi saksóknari í Zürich. „Hann gæti bara hoppað um borð í lest til Þýskalands.“ Lögfræðingar Polanskis einbeita sér nú að því að vinna málið fyrir dómstólum. Þeir fara fram á að hann verði látinn laus og segja hann heita því að yfirgefa ekki landið meðan beðið er úrskurðar um hvort hann verður framseldur til Bandaríkjanna.

Polanski á yfir höfði sér dóm í Bandaríkjunum fyrir að hafa nauðgað þrettán ára stúlku þar árið 1977. Hann hefur verið í útlegð frá Bandaríkjunum síðan stúlkan höfðaði mál gegn honum árið 1988, þá orðin 25 ára.

Hann var handtekinn þegar hann kom til Zürich í Sviss hinn 26. september. Þar hafði hann ætlað að taka þátt í alþjóðlegri kvikmyndahátíð. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×