Innlent

Félög mega kaupa einbýlishúsalóðir

Margir hafa guggnað á lóðakaupum í kreppunni en þeir eru þó til sem gjarnan vilja lóðir undir íbúðarhús í Reynisvatnsási og Úlfarsárdal.
Margir hafa guggnað á lóðakaupum í kreppunni en þeir eru þó til sem gjarnan vilja lóðir undir íbúðarhús í Reynisvatnsási og Úlfarsárdal.

 Þrátt fyrir að nýjar reglur um lóðaúthlutanir séu ekki enn tilbúnar verður komið til móts við lóðaumsækjendur í Reykjavík með gildistöku nokkurra undantekningaákvæða frá núverandi úthlutunarreglum.

Samkvæmt erindi framkvæmda- og eignasviðs til borgarráðs hafa borist nokkrar fyrirspurnir um íbúðarhúsalóðir í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási. Verið sé að endurskoða skilmála fyrir úthlutanir en að ekki sé gert ráð fyrir að þeim breytingum verði lokið fyrr en um næstu mánaðamót. Þá á að auglýsa eftir almennum umsóknum.

Meðal þeirra undantekninga sem borgarráð hefur nú samþykkt að gera á úthlutunarreglunum er að fyrirtæki megi kaupa allt að fjórar einbýlis­húsa- og parhúslóðir. Þeir sem fengið hafa lóðir og skilað þeim til baka á síðustu fjórum árum geta ekki fengið lóð. Þá geta lóðarhafar nú ekki ákveðið einhliða að skila henni aftur og fá endurgreiðslu.

Verðið fyrir byggingarréttinn er það sama og það var í árslok 2007. Hægt verður að greiða 90 prósent af lóðargjöldunum með verðtryggðu skuldabréfi til fimm til átta ára. Vextirnir eru fjögur prósent. Einnig er hægt að fá styttri lán þar sem vextirnir miðast við 4. kjörvaxtaflokk hjá Landsbankanum. Þeir vextir eru í augnablikinu 22,7 prósent. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×