Innlent

Leggja varðskipi og þyrlufækkun rædd

Hinn nýi Þór er eitt fullkomnasta varð- og björgunarskip heims.
Mynd/lhg
Hinn nýi Þór er eitt fullkomnasta varð- og björgunarskip heims. Mynd/lhg

Öryggismál Landhelgisgæslan fær ekki viðbótarfjárveitingu til að reka nýtt varðskip sem er væntanlegt til landsins í apríl. Til greina kemur að reka aðeins tvær þyrlur í stað þriggja sem myndi þýða enn frekari veikingu á flugsveitinni frá því sem nú er.

„Það er ljóst að við gerum ekki út þrjú varðskip,“ segir Sólmundur Már Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. „Við tökum nýja skipið í rekstur sem þýðir að við leggjum frekar Tý eða Ægi eða drögum verulega úr úthaldi á þeim.“ Þegar ákvörðun var tekin um byggingu nýja varðskipsins ætlaði LHG að reka öll skipin þrjú. Þjálfun nýrrar áhafnar, 25 til 30 manna, átti að fara fram á þessu ári en ljóst var fyrir nokkru að það gengi ekki eftir. Þvert á móti hefur starfsmönnum verið fækkað um þrjátíu á stuttum tíma og við aðhaldsaðgerðir síðasta árs hefur úthaldsdögum varðskipa verið fækkað um þriðjung og flugtímum um fjórðung. Með því að reka aðeins tvö skip sparast um 250 milljóna króna rekstrarkostnaður eins varðskips.

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra skipaði nýlega nefnd sem á að taka stefnumarkandi ákvarðanir varðandi þjónustu LHG með hliðsjón af samdrætti í fjárframlögum. Sú vinna á að ganga hratt en nefndin hefur þó ekki komið saman enn þá. Sólmundur segir að innan LHG séu margar sparnaðarhugmyndir ræddar en niðurstöðu nefndarinnar, sem á að horfa þrjú til fimm ár fram í tímann, sé beðið með nokkurri óþreyju.

Ein þeirra hugmynda sem Sólmundur vísar til er að fækka björgunarþyrlum úr þremur í tvær. „Það myndi ekki fækka flugtímum en flugsveitin er viðkvæmari ef kemur til bilana. Þá fjölgar dögum þar sem bara ein vél er til taks, en hafa ber í huga að við erum með þrjár þyrlur til að hafa alltaf tvær tiltækar.“

Vegna fækkunar í þyrlusveitinni á þessu ári er aðeins ein þyrla starfhæf hluta úr hverjum mánuði. Þetta hefur verið gríðarlega umdeilt. Ekki síst þar sem björgunargeta einnar þyrlu er aðeins tuttugu mílur frá landi.

Aðeins ein þyrla er í eigu þjóðarinnar, TF-LÍF, og tvær þyrlur eru leigðar. Kostnaður við leiguþyrlurnar er hátt í milljarður á ári eða ríflega þriðjungur af fjárframlögum LHG árið 2010. Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að fjárveitingar lækki um 219 milljónir að raungildi og er fjárveitingin alls 2.783 milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×