Innlent

Fleiri síldartorfur finnast á sundum við Stykkishólm

Rannsóknaskipið Dröfn hefur staðfest að miklar síldartorfur eru nú við innanverðan Breiðafjörð á sundunum við Stykkishólm. Tvö síldveiðiskip eru á leið þangað. Menn bíða hins vegar milli vonar og ótta niðurstaðna um hversu alvarleg sýking er í síldinni.

Síldveiðiskipin Súlan EA og Börkur NK eru á leið á Breiðafjörð, þar sem Sighvatur Bjarnason VE fann miklar síldartorfur í fyrradag. Þar er fyrir rannsóknaskipið Dröfn. Páll Reynisson, leiðangurstjóri um borð, staðfestir að miklar torfur sjáist allt í kringum Stykkishólm, einkum á Breiðasundi, en einnig inni á Hofsstaðavogi og innan við Kiðey.

Ef allt er með felldu virðist því blasa við að síldveiðiflotinn geti á næstu vikum mokað þarna upp milljarðaverðmætum. Menn óttast hinsvegar að síldin kunni enn að vera sýkt, sem gerir hana mun verðminni. Sýni hafa verið tekin úr síldinni til að meta hversu alvarleg sýkingin er og verða þau send til Reykjavíkur í kvöld til rannsókna hjá Hafrannsóknastofnun.

Skipverjar á Sighvati köstuðu á síldina í gær við Stykkishólm en rifu nótina, að sögn Jóns Eyfjörðs skipstjóra. Nótin nam við botn og festist, að sögn Jóns, en þarna er mjög grunnt. Kom Sighvatur Bjarnason til Eyja nú fyrir hádegi til að gera við nótina.

Síldveiðar eru enn takmarkaðar og aðeins búið að gefa út 15 þúsund tonna rannsóknarkvóta. Síld hefur einnig fundist út af Suðausturlandi og landaði Jóna Eðvalds í gær um 80 tonnum á Hornafirði sem veiddust á Breiðamerkurdýpi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×