Lífið

Safna ullarvörum fyrir bresk gamalmenni

Kolbrún Björnsdóttir og Heimir Karlsson ásamt Gleðigjafanum Gissuri Sigurðssyni.
Kolbrún Björnsdóttir og Heimir Karlsson ásamt Gleðigjafanum Gissuri Sigurðssyni.

Í bítinu á Bylgjunni í morgun kom upp sú hugmynd að setja af stað söfnun fyrir bresk gamalmenni. Heimir Karlsson annar stjórnandi þáttarins segir að í Bretlandi sé reiknað með að tólf gamalmenni deyji á hverjum klukkutíma, yfir kaldasta vetrartímann, úr kulda eða sjúkdómum tengdum kulda. Stjórnendur þáttarins ætla því að safna íslenskum lopavörum og senda til gamalmenna í Bretlandi. Heimir ætlar persónulega að fara með eina peysu til Gordons Brown.

„Þeir segja að 260.000 gamalmenni hafi látist vegna kulda í Bretlandi síðan 1997. Ég reiknaði það nú út að ef það deyja tólf gamalmenni á hverri klukkustund þá eru þetta sautján þúsund manns á tveimur mánuðum, sem er fáránlegt í vestrænu ríki," segir Heimir.

Í kjölfar þessara staðreynda kom upp sú hugmynd að við íslendingar sýndum hjartalag okkar þrátt fyrir meðferðina sem við höfum fengið og færum að safna lopapeysum, húfum, treflum, vettlingum og sokkum og færum með til Bretlands.

„Hingað hafa hringt aðilar sem eru tilbúnir til þess að hjálpa okkur að safna þessu saman um allt land. En fólk getur sent þetta eða komið með þetta hingað niður á Bylgju í Skaftahlíðinni. Þetta verða að vera alvöru íslenskar ullarvörur sem er mjög táknrænt," segir Heimir.

Og fær Gordon Brown vinur okkar ekki eina peysu? „Ég ætla að fara með eina persónulega til hans, og húfu líka," segir Heimir og hlær.

Hann segir að ekki megi gleyma því að kyndingin í Bretlandi sé mjög léleg sem og einangrun á húsum. „Síðan er gamla fólkið hætt að borga af gasinu."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.