Lífið

Viltu vinna milljarð með átta Óskara

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Dev Patel og Freida Pinto í hlutverkum sínum í Viltu vinna milljarð.
Dev Patel og Freida Pinto í hlutverkum sínum í Viltu vinna milljarð. MYND/Fox/Searchlight

Átta Óskarsverðlaun féllu breska leikstjóranum Danny Boyle og kvikmynd hans, Viltu vinna milljarð, í skaut í nótt.

Ameríska kvikmyndaakademían útdeildi verðlaunum sínum í 81. skiptið í gærkvöldi. Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan fyrstu verðlaunin voru afhent í maí árið 1929 að viðstöddum rúmlega 200 manns og að fyrsta Óskarsverðlaunahafanum, Emil Jannings, fjarstöddum. Hann fór heim til Þýskalands rétt fyrir athöfnina.

Einhverjir reyndust sannspáir fyrir athöfnina í gær þar sem breski leikstjórinn Danny Boyle og kvikmynd hans Viltu vinna milljarð, eða Slumdog Millionaire, sópuðu til sín verðlaununum og urðu þau að lokum átta. Bretar voru sigursælir í gær því þeim féll einnig í skaut stytta fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki en henni hampaði Kate Winslet fyrir leik sinn í Lesaranum, The Reader.

Indverska tónskáldið A.R. Rahman fékk tvenn verðlaun fyrir tónlistina í Viltu vinna milljarð og hafa fáar myndir hlotið fleiri Óskara um dagana. Rétt er þó að geta þess að mest hafa 11 styttur verið merktar sömu myndinni og hefur það gerst í þrígang. Fyrst til að hljóta 11 verðlaun var Ben Hur frá 1959 og síðar bættust í hópinn Titanic og lokahluti Hringadróttinssögu, The Return of the King.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.