Innlent

Fagfélagið gefur Krabbameinsfélaginu milljón

Ragnheiður Alfreðsdóttir, forstöðumaður Ráðgjafarmiðstöðvar KÍ, að taka við
styrknum úr hendi Finnbjörns Hermannssonar, formanns Fagfélagsins.
Ragnheiður Alfreðsdóttir, forstöðumaður Ráðgjafarmiðstöðvar KÍ, að taka við styrknum úr hendi Finnbjörns Hermannssonar, formanns Fagfélagsins.

Í gær afhenti Fagfélagið Ragnheiði Alfreðsdóttur, forstöðumanni Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, eina milljón króna til styrktar átakinu Karlmenn og krabbamein. Fagfélagið er stéttarfélag sem varð til í desember þegar Trésmiðafélag Reykjavíkur og Félag byggingamanna Eyjafirði runnu saman.

„Karlmenn eru í miklum meirihluta í Fagfélaginu og krabbamein er sjúkdómur sem herjar á karla. Þrátt fyrir það er krabbamein hálfgerður feimnissjúkdómur, sem menn tala almennt ekki um," segir Finnbjörn Hermannsson, formaður Fagfélagsins við tilefnið. Ákvörðunin um styrkinn var tekin á fyrsta aðalfundi hins nýstofnaða stéttarfélags.

„Þegar átakið Karlmenn og krabbamein fór af stað vildum við leggja okkar af mörkum til að rjúfa þögnina og hvetja karlmenn til að miðla af reynslu sinni. Menn flíka oft ekki líðan sinni, en með því að ræða þessa hluti opinskátt er bæði hægt að bera fyrr kennsl á fyrstu einkenni og læra hvernig bregðast skuli við," bætir Finnbjörn við.

Í tilkynningu frá Krabbameinsfélagi Íslands segir að Árveknisátakið Karlmenn og krabbamein standi hvað hæst í marsmánuði en það var nú haldið í annað sinn. Það er Krabbameinsfélag Íslands sem á veg og vanda af átakinu sem ætlað er að vekja karlmenn til vitundar um krabbamein hjá körlum, einkenni þess en einnig forvarnir og heilbrigðan lífsstíl.

„Við erum afar þakklát fyrir að fá þennan styrk og hann mun nýtast málefninu mjög vel. Allur ágóði af átakinu rennur til frekari forvarna á þessu sviði og til Ráðgjafarþjónustu okkar, sem veitir ókeypis stuðning og sérfræðiráðgjöf um allt sem tengist krabbameini," segir Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins. „Einn af hverjum þremur körlum greinist með krabbamein einhvern tíma á lífstíð sinni, og það er ánægjulegt að sjá félag eins og Fagfélagið, sem er aðallega stéttarfélag karla, sýna slíka samstöðu og gott fordæmi með því að leggja sitt af mörkum við að opna umræðuna meðal karla."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×