Innlent

Ekki einfalt mál að gæta að kynjahlutfalli að óbreyttu

Guðbjartur Hanneson
Guðbjartur Hanneson

Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, segir ekki einfalt að gæta að kynjahlutföllum þegar kosið er í ráð á vegum ríkisins eins og í bankaráð Seðlabankans. Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnmálafræðingur, segist telja að jafnréttislög hafi verið brotin í gær þegar seðlabankaráð var skipað.

Þar eru tvær konur af sjö fulltrúum ráðsins en jafnréttislög gera ráð fyrir því að hlutfall annars hvors kynsins sé að minnsta kosti 40 prósent. Á bloggsíðu sinni segist Silja Bára hafa kvartað við Jafnréttisstofu og á Eyjunni er haft eftir framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu að málið verði tekið til umfjöllunar.

„Þegar við vorum að setja jafnréttislögin á sínum tíma gerðum við greinarmun á því hvort verið væri að kjósa inni í þinginu pólitíska fulltrúa eða hvort verið væri að skipa á vegum félaga eða stofnana til verkefna," segir Guðbjartur Hannesson forseti Alþingis og bendir á að í síðara tilfellinu sé ákvæði um að það eigi að tilnefna tvo fulltrúa þannig að sá ráðherra sem skipar endanlega eigi þá kost á því að jafna kynjahlutfallið.

Flokkarnir ráða sínum fulltrúum

„Í þessu umrædda tilfelli eru flokkarnir að kjósa sjálfir í ráðið. Samfylkingin passaði sig á því að vera með karl og konu og ég man ekki hvernig Sjálfstæðisflokkurinn skipti sínum fulltrúum en hinir flokkarnir eru bara að kjósa einn fulltrúa," segir Guðbjartur. „Þetta er auðvitað alltaf óheppilegt og það ætti auðvitað að vera jöfn kynjaskipting, en menn hafa ekki þróað neina aðferð til þess að leiðrétta þetta. Það er enginn aðili sem getur skipað í Seðlabankaráð að fengnum tillögum því þetta er kosið beint og þar ber hver flokkur ábyrgð á sínu."

Guðbjartur bendir á að svipuð staða hafi komið upp þegar kosið var í bankaráðin. Þar kom til dæmis upp sú staða að hjá Kaupþingi er bankaráðið einungis skipað konum. „Það full ástæða til þess að ræða þessi mál og markmiðið hlýtur að vera það að gæta jafnræðis. En þá þyrfti þetta að vera þannig að flokkur sem væri að skipa fulltrúa þyrfti að tilnefna tvo og síðan væri ráðherra eða einhverjum öðrum aðila heimilt að velja annanhvorn til þess að gæta að kynjahlutfallinu," segir Guðbjartur að lokum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.