Innlent

Gefa ný krabbameinslyf fyrsta árið á Íslandsmarkaði

Sigurður Óli Ólafsson, forstjóri Actavis.
Sigurður Óli Ólafsson, forstjóri Actavis. MYND/GVA
Actavis hefur ákveðið að færa íslenskum sjúkrastofnunum gjöf í tilefni þess að fyrstu krabbameinslyf félagsins á stungulyfjaformi eru nú aðgengileg á Íslandi. Mun Actavis afhenda sjúkrastofnununum ársbirgðir af fimm tilteknum krabbameinslyfjum endurgjaldslaust, að fram kemur í tilkynningu. Verðmæti gjafarinnar er metið um 13til15 milljónir íslenskra króna.

„Við vildum láta gott af okkur leiða, í ljósi efnahagsástandsins hér á landi. Okkur þótti upplagt að gera það með þessum hætti í tilefni þess að þetta eru fyrstu krabbameinslyfin á stungulyfjaformi frá Actavis sem koma til Íslands. Það að fjölga samheitalyfjum í þessum lyfjaflokki hefur mikla hagræðingu í för með sér fyrir sjúkrastofnanirnar í landinu.

Actavis hefur frá upphafi sýnt samfélagslega ábyrgð í verki og mun halda því áfram eins og kostur er," segir Sigurður Óli Ólafsson, forstjóri Actavis.

Lyfin eru öll framleidd í lyfjaverksmiðju Actavis í Rúmeníu, sem er sérhæfð í framleiðslu krabbameinslyfja. Verksmiðjan var keypt vorið 2006. Síðan hefur verið unnið að því að skrá lyf frá henni inn á markaði Actavis víða um heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×