Íslenski boltinn

Logi: Erum ekki að fara að berjast við drauga

Logi Ólafsson, þjálfari KR
Logi Ólafsson, þjálfari KR Mynd/Rósa

"Við erum að fara að etja kappi við eitt besta knattspyrnulið landsins og ætlum að reyna að halda sögunni aðeins til hliðar," sagði Logi Ólafsson þjálfari KR í samtali við Vísi þegar hann var spurður út í leik liðsins gegn FH í kvöld.

Logi vísar þarna í þá staðreynd að KR hefur tapað átta leikjum í röð gegn FH og hefur ekki unnið Hafnafjarðarliðið í síðustu ellefu leikjum í deildinni, eða síðan um mitt sumar 2003.

"Okkur er það alveg nógu erfitt verkefni að mæta FH svo við förum ekki að berjast við einhverja drauga," sagði Logi.

KR hefur byrjað ljómandi vel í Pepsi-deildinni og er á toppnum með 10 stig og markatöluna 7-1 eftir fjóra leiki. Logi er sáttur við byrjun KR-liðsins.

"Þetta hefur byrjað alveg ágætlega og við erum sáttir við það, en við förum í þetta verkefni í kvöld af fullri einurð. Menn gera sér fyllilega grein fyrir því hvaða mótherja þeir eru að fá í vesturbæinn. Það í sjálfu sér er þeim alveg næg hvatning," sagði Logi.

En hvað er hann ánægðastur með í byrjun leiktíðar? "Við erum auðvitað ánægðir með það að hafa ekki fengið nema eitt mark á okkur, en að sama skapi erum við ósáttir við að hafa ekki náð að skora á móti Þrótti. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta hinsvegar mjög ásættanleg staða eftir fjóra leiki," sagði Logi að lokum.

Leikur KR og FH hefst klukkan 20:00 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Hægt verður að fylgjast með gangi mála í öllum leikjum umferðarinnar á Boltavaktinni hér á Vísi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×