Innlent

Samkeppniseftirlitið sektar Vélar og verkfæri um 15 milljónir

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Mynd/Rósa J.
Samkeppniseftirlitið leggur 15 milljón króna stjórnvaldssekt á Vélar og verkfæri vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu sína við sölu á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi eða svokallað masterlyklakerfi.

Þetta gerði fyrirtækið með því að koma í veg fyrir að þjónustuaðilar höfuðlyklakerfa flyttu inn og seldu höfuðlyklakerfi frá öðrum framleiðendum en ASSA í Svíþjóð og vinna gegn því að aðrir erlendir framleiðendur næðu fótfestu á íslenskum markaði.

Samkeppniseftirlitið segir brot fyrirtækisins vera alvarlegt og hefur áhrif á sölu á tilbúnum lyklakerfunum beint til neytenda. Kerfin samanstanda af mismunandi lásum og lyklum fyrir tiltekna fasteign þar sem þó er til staðar einn höfuðlykill sem gengur að öllum lásum.

Telur Samkeppniseftirlitið að brot Véla og verkfæra hafi verið alvarleg og myndað verulega aðgangshindrun. Því var að mati Samkeppniseftirlitsins nauðsynlegt að leggja stjórnvaldssekt á fyrirtækið að upphæð 15 milljónir króna. Við ákvörðun sektarfjárhæðar var meðal annars horft til alvarleika brotanna og sektir því umtalsverðar miðað við veltu á viðkomandi markaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×