Innlent

Vill leiða Frjálslynda í Reykjavík

Viðar Guðjohnsen
Viðar Guðjohnsen

Viðar Guðjohnsen, formaður Landssambands ungra frjálslyndra, sækist eftir að leiða lista Frjálslynda flokksins í Reykjavík suður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðari.

Þar segir Viðar meðal ananrs að horfurnar séu ekki góðar fyrir íslensku þjóðina sem nú sé á barmi gjaldþrots.

„Skuldir heimilinna hafa margfaldast og svo virðist sem aðeins fámenn elíta hafi hagnast á þessu svokallaða íslenska efnahagsundri. Sjálfstæði þjóðarinnar hefur aldrei verið í meiri hættu og í þeim málum virðist sem meðvirknin, blindnin og atkvæðaleitin sé stundum skynseminni yfirsterkari," segir Viðar í yfirlýsingunni.

Þá segir hann að atvinnuleysið hafi aukist og því alger nauðsyn að koma með róttækar lausnir til þess að sporna gegn stórfelldum landflótta.

„Lausnirnar sem ég mun leggja áherslu á felast meðal annars í því að stuðla að virkara lýðræði, tryggja að Ísland verði fullvalda um ókomna tíð, afnema rétt örfárra til þess að veiða fiskinn í sjónum, auka smábátaveiðar, krefjast þess að fiskvinnsla fari fram í auknum mæli á Íslandi, veiða hvali, vernda íslenska framleiðslu, styrkja smáiðnað og hagræða löggjöf þannig að smáfyrirtæki blómstri.

Á hremmingartímum sem þessum kemur mikilvægi íslenska landbúnaðarins í ljós. Það verður ekki litið framhjá því að íslensk matvælaframleiðsla er ekki bara hagkvæm heldur þjóðaröryggismál. Ráðamenn þjóðarinnar þurfa að spyrja sig um sjálfbærni Íslendinga til matvælaframleiðslu ef kemur til styrjaldar, heimssóttar eða alheimskreppu.

Frjálslyndi flokkurinn hefur í áraraðir barist fyrir því að íslenskur almenningur hafi jafnan rétt á fiskveiðum við íslandsmið, fyrir auknu réttlæti og fyrir róttækum umbótum hjá eldri borgurum.

Ég hef því ákveðið að bjóða mig fram til að leiða lista Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi Suður í næstu Alþingiskosningum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×