Innlent

Geir segir allt í góðu á stjórnarheimilinu

Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra.

Forsætisráðherra segir stjórnarsamstarfið sterkt og vísar því á bug að formaður Samfylkingar sé að finna átyllu til að slíta því með ummælum um Evrópusambandið. Mismunandi áherslur um ESB séu ekki nýjar af nálinni.

Um áramótin opnaði Geir Haarde forsætisráðherra á möguleikann um að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um það hvort farið yrði í viðræður um Evrópusambandsaðild. Ef það yrði samþykkt myndi þjóðin í annarri atkvæðagreiðslu kjósa um hvort Ísland myndi ganga inn í Evrópusambandið. Málið verður tekið fyrir á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, en um það eru afar skiptar skoðanir meðal flokksmanna.

Formaður Samfylkingar hefur ítrekað lýst því yfir að flokkur hennar vilji láta kjósa beint um aðild að ESB. Verði niðurstaða landsfundar Sjálfstæðisflokks á öðrum nótum, sé allt eins gott að efna til þingkosninga um leið og þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um viðræður við sambandið. Þetta hafa margir, einkum Sjálfstæðismenn, talið að sé átylla Samfylkingar til stjórnarslita. Forsætisráðherra vísar því á bug og segir að ekki sé verið að finna átyllu til að slíta samstarfinu.

Stjórnmálafræðingar hafa hins vegar bent á að augljósir brestir séu í stjórnarsamstarfinu. Ýmis ummæli flokksmanna styðji það, auk þess sem áherslur í Evrópusambandsmálum séu afar ólíkar. Það síðarnefnda segir forsætisráðherra að hafi alltaf legið fyrir, verið sé að vinna í Evrópusambandsmálunum á vettvangi beggja flokka og vonast sé til að komist verði að sameiginlegri niðurstöðu þegar þeirri vinnu lýkur.

Geir segir ennfremur að stjórnarsamstarfið þoli það að það séu misjafnar skoðanir á stórum málum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×