Innlent

Álfheiður: Það fer enginn í fötin hans Ögmundar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Álfheiður Ingadóttir tekur við embætti heilbrigðisráðherra í dag. Mynd/ Anton.
Álfheiður Ingadóttir tekur við embætti heilbrigðisráðherra í dag. Mynd/ Anton.
„Þetta eru ekki auðveldar aðstæður að taka við ráðuneyti sem þessu. Bæði vegna efnahagsástandsins og niðurskurðarins sem er geigvænlegur, en svo líka vegna þess að Ögmundur er að láta af embætti með þessum hætti, skyndilega og það fer auðvitað enginn í fötin hans Ögmundar. Það vita allir sem til þekkja," segir Álfheiður Ingadóttir.

Álfheiður verður skipuð heilbrigðisráðherra í dag. Hún segir verkefnið erfitt en það verði að sinna því eins og öðru. Aðspurð segist hún telja niðurskurðinn í heilbrigðisþjónustunni og velferðarþjónustunni almennt kvíðvænlegan. Hún telji hins vegar og voni að hægt sé að klára hann af. „Ég held að það kvíði allir í landinu fyrir þessum vetri vegna niðurskurðarins. En það eru ýmis önnur teikn á lofti sem eru jákvæð og sem segir mér að við munum komast í gegnum þetta," segir Álfheiður. Hún bendir á að margt gangi betur í samfélaginu en spáð hafi verið. Minni samdráttur í þjóðartekjum og minna atvinnuleysi svo dæmi séu tekin.

Þrátt fyrir að stjórnarsamstarfið hafi virst titra í gær segist Álfheiður telja að ríkisstjórnin muni starfa áfram. „Ég held að fyrst ríkisstjórnin fór í gegnum þetta sumar, eins erfitt og það var að mörgu leyti, að þá muni hún sitja út þetta kjörtímabil," segir Álfheiður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×