Erlent

Leysir geimspegill hlýnunarvandann?

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Reuters

Vísindamenn telja sig geta barist gegn gróðurhúsaáhrifum með því að setja risastóran spegil á braut um jörðu.

Dr. Roger Angel við Háskólann í Arizona telur í fúlustu alvöru að þetta geti gengið upp. Hann segir að með því að skjóta fjölda spegla út í geiminn og koma þeim á braut um jörðu, þannig að þeir snúi að sólinni, verði hægt að mynda gríðarstóran sólarskjöld sem endurvarpi hluta af geislum sólarinnar frá jörðinni og dragi þar með úr hitanum.

Angel segir prófanir þegar vera hafnar með eins konar fallbyssu sem skjóta muni speglunum á braut og gangi allt saman eins og smurt mætti ljúka verkefninu á 20 til 30 árum. Svona verkefni lýkur þó kannski ekki beint. Búast má við að speglarnir eyðileggist á um það bil 50 árum svo endurnýjun þeirra þarf að fara fram reglulega.

Þar sem flatarmál speglanna þarf að mati Angels að vera samtals 100.000 fermílur, eða tæplega 260.000 ferkílómetrar, sem er ekki svo langt frá flatarmáli Íslands, má gera sér í hugarlund að um eilífðarverkefni sé að ræða. Nota þarf milljónir spegla í hvern sólarskjöld svo nú geta menn skemmt sér við að reikna, miðað við sjö ára ógæfu, hve mikla bölvun menn geti bakað sér ef eitthvað klikkar við að skjóta milljón speglum með fallbyssu út í geiminn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×