Erlent

Mikill olíuleki við suðurströnd Noregs

Flutningaskipið Full City sigldi í strand í hvassviðrinu og hefur verulegt magn af olíu lekið úr eldsneytistönkum þess.
Mynd/AP
Flutningaskipið Full City sigldi í strand í hvassviðrinu og hefur verulegt magn af olíu lekið úr eldsneytistönkum þess. Mynd/AP

Verulegt magn af olíu hefur lekið úr kínverska flutningaskipinu Full City, sem strandaði við suðurströnd Noregs snemma í fyrrinótt. Síðar um nóttina sökk norskt flutningaskip við suðvesturströnd Svíþjóðar og er sex manna úr áhöfn þess saknað.

Óttast er að olíulekinn úr kínverska skipinu valdi miklum skaða á lífríkinu við ströndina, en skipið strandaði við Langasund.

Fuglalíf á þessum slóðum er í hættu og fljótlega fundust margir fuglar fastir í olíunni. Áhöfn skipsins vann að því ásamt björgunarfólki að hreinsa olíu úr sjónum, en ekki var ljóst í gær hve vel myndi takast til með það.

Almenningur var beðinn um að forðast ströndina þar til ljóst verður hve skaðinn er mikill. „Tími strandbaða er liðinn í Krókshöfn og Steinvík þetta árið," hafði norska dagblaðið Aftenposten eftir Jon Pieter Flølo, talsmanni Þelamerkursýslu, á vefsíðum sínum í gær.

Tuttugu og þriggja manna áhöfn skipsins slapp heilu og höldnu. Skipið er skráð í Panama en í eigu Kínverja og áhöfnin er að mestu skipuð Kínverjum. Meira en þúsund tonn af olíu voru í eldsneytistönkum skipsins en ekki er ljóst hve stór hluti hennar lak út í hafið.

Á vefsíðum norska dagblaðsins Aftenposten er fullyrt að á tímabili hafi hreinlega rignt olíu við ströndina, því hvassviðrið hafi þeytt henni á loft langar leiðir.

Norska skipið Langeland sökk í Kosterfirði við Svíþjóð, skammt frá landamærum Noregs. Bæði sjóslysin urðu því á svipuðum slóðum með fárra klukkustunda millibili, en mikið hvassviðri geisaði þarna í fyrrinótt.

Áhöfnin er að mestu rússnesk og var í gær gerð mikil leit að sex manns úr áhöfninni sem taldir voru af. Sex björgunarvesti, fleki og brak úr skipinu fannst á floti í hafinu.

Skipið er 2.500 tonn að þyngd og 70 metra langt. Það var á leiðinni frá Karlshöfn í Svíþjóð til Moss í Noregi og sendi frá sér neyðarmerki klukkan sex í gærmorgun.

Á þessu svæði er dýptin til botns á bilinu 50 til 200 metrar, en það þótti of mikið dýpi til að hægt væri með góðu móti að kafa niður að skipinu til að kanna hvort mennirnir sex hafi hugsanlega verið á lífi í loftrými einhvers staðar í skipinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×