Innlent

Saka oddvitann um að stela bókhaldinu

Meðalfellsvatn í Kjós Í Kjósarhreppi búa um 190 manns.
Meðalfellsvatn í Kjós Í Kjósarhreppi búa um 190 manns. Mynd/Guðmundur Þ. Steinþórsson

Þegar Sigurbjörn Hjaltason, oddviti Kjósarhrepps, mætti til vinnu eftir jól mætti honum stórskemmd hurðin á hreppsskrifstofunni. Brotist hafði verið inn og tölvum með gögnum hreppsins stolið. Þau eru ófundin.

Sigurbjörn segir að málið líti óneitanlega þannig út að þjófurinn hafi aðeins ásælst gögnin, en meðal gagnanna er bókhald bæjarins auk ýmissa viðkvæmra persónulegra upplýsinga um málefni einstaklinga og sveitarfélagsins, til dæmis um fjármál fólks. „Svo eru þarna tölvupóstar á milli mín og starfsmanna félagsmálasviðs Mosfellsbæjar. Hlutir sem ekki eiga að komast á flot,“ segir Sigurbjörn.

Engu öðru var stolið, þótt inni væru verðmætir hlutir á borð við handhægan peningaskáp, flatskjá og skjávarpa.

Eftir að fréttir birtust um innbrotið á vef sveitarfélagsins fóru að berast við þær óvægnar athugasemdir frá tveimur sveitungum Sigurbjörns, þar sem ýjað var að því að hann hefði sjálfur átt þátt í innbrotinu og hvarfi gagnanna vegna þess að þau sýndu fram á spillingu og óráðsíu í rekstri sveitarfélagsins.

Sigurbjörn fjarlægði athugasemdirnar, þar sem honum þóttu þær meiðandi. Í kjölfarið bárust fleiri athugasemdir þar sem hann var sakaður um ritskoðun og kenndur við Robert Mugabe, forseta Simbabve.

Annar þeirra sem skildi eftir athugasemdirnar skrifaði undir nafni. Sá er Pétur Jónsson í Þúfukoti. Sigurbjörn segir hann annan tveggja sem hafi um nokkurn tíma troðið illsakir við sig og sveitarfélagið vegna skipulagsmála. Hinn sé tannlæknirinn Jón Birgir Jónsson, sem Sigurbjörn segist sannfærður um að hafi ritað hinar athugasemdirnar undir dulnefni.

Sigurbjörn segir ásakanirnar mjög óþægilegar. Hann grunar þó ekki Pétur eða Jón Birgi um að hafa stolið gögnunum. „Þessi skrif á síðunni voru þess eðlis að flestir telja vera eitthvert samhengi þarna á milli, þótt ég vilji ekki meina það.“

Og Sigurbjörn er ekki ánægður með viðbrögð lögreglu, í ljósi þess hversu alvarlegt það sé að svo viðkvæmum upplýsingum sé stolið. „Við bíðum í rauninni bara eftir því að lögreglan hristi af sér slenið og fari að rannsaka þetta,“ segir hann. stigur@frettabladid.is

Sigurbjörn Hjaltason



Fleiri fréttir

Sjá meira


×