Erlent

Raul Castro: Varð ekki forseti til að innleiða kapitalisma

Óli Tynes skrifar

Raul Castro forseti Kúbu sagði á þingi í dag að hann hefði ekki orðið forseti til þess að innleiða kapítalisma og hverfa frá sósíalisma. Hann beindi orðum sínum til Hillarys Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Þjóðþing Kúbu kemur saman tvisvar á ári, mest til þess að hlusta á það sem leiðtoginn ætlast til að það geri.

Í dag eins og venjulega stóð stóllinn sem Fidel Castro notaði auður. Raul Castro sat í sínu venjulega sæti, vinstra megin við stól bróðurins.

Kúba er hreint út sagt á hausnum. Ástandið er svo slæmt að hætt hefur verið við þing kommúnistaflokksins sem til stóð að halda. Það hefði verið fyrsta flokksþingið í tólf ár.

Raul Castro er þó ekkert á því að breyta stjórnarháttum í landinu.

Eitt af því sem samþykkt var á þinginu var að setja á stofn skrifstofu fjármálaeftirlits til þess að berjast gegn spillingu og sóun.

Ríkisstjórn Kúbu miðstýrir níutíu prósentum af hagkerfi landsins. Meðallaunin sem hún greiðir eru tuttugu dollarar á mánuði.

Það leiðir meðal annars til þess að starfsmenn stela mat, raftækjum og öllu öðru sem þeir geta selt á svarta markaðinum til þess að ná endum saman.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×