Erlent

John Howard verður fórnarlamb skóníðinga

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
John Howard.
John Howard.

John Howard, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, hefur nú bæst í hóp þeirra stjórnmálamanna sem lenda í því að verða fyrir skókasti.

Howard var í sakleysi sínu í heimsókn hjá háskólanemum við Cambridge-skólann í Bretlandi þegar síðhærður, og reyndar ástralskur, nemandi hrópaði að honum þá ásökun að hann væri kynþáttahatari, reif af sér annan skóinn og fleygði í átt að ráðherranum fyrrverandi. Reyndar fór því fjarri að skórinn hæfði mark sitt enda hafði Howard uppi háðsglósur um þetta ömurlega kast.

Haft hefur verið eftir skókastaranum að hann hafi skammast sín fyrir að vera Ástrali öll þau 11 ár sem Howard gegndi embætti. Þá skipaði hann gestinum að hafa sig heim en Howard svaraði því til, hinn rólegasti, að hann væri ekki kynþáttahatari og að hann færi heim á þriðjudaginn, sem sagt í gær. Nemandinn sem skipulagði heimsóknina segir í samtali við Telegraph að það besta af öllu hafi verið að sá sem grýtti skónum hafi svo, eftir að honum var vísað úr salnum, beðið félaga sinn að nálgast skóinn fyrir sig.

Lögregla yfirheyrði manninn eftir atvikið en ekki er gert ráð fyrir miklum eftirmálum. Með þessu er John Howard kominn í hóp fórnarlamba skókasts en þar eru fyrir George Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti, og Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína. Howard sagði þetta síðasta kast ákaflega dapurt og að hann myndi ekki velja kastarann í sitt lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×