Lífið

Kjúklingum stolið úr frystikistu

Eftir áramót verður sýnt í Þjóðleikhúsinu verkið Hænuungarnir í leikstjórn Stefáns Jónssonar.
fréttablaðið/anton
Eftir áramót verður sýnt í Þjóðleikhúsinu verkið Hænuungarnir í leikstjórn Stefáns Jónssonar. fréttablaðið/anton

„Þetta er afskaplega fyndið eins og Braga einum er lagið, alveg óþolandi fyndið eiginlega,“ segir leikstjórinn Stefán Jónsson. Eftir áramót verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu leikritið Hænuungarnir eftir Braga Ólafsson í leikstjórn Stefáns.

Með aðalhlutverkið fer Eggert Þorleifsson en eins og margir muna eflaust eftir naut síðasta leikrit þeirra þriggja, Belgíska Kongó, mikilla vinsælda. „Þetta er í raun og veru framhald af góðum kynnum okkar Eggerts og Braga í Belgísku Kongó. „Þetta er ekki framhaldsleikrit en þetta er framhald á því samstarfi sem tókst með miklum ágætum,“ segir Stefán. „Við höfðum voðalega gaman hver af öðrum þótt við höfum svo sem þekkst allir fyrir þann tíma. Við náðum saman og ákváðum að gera eitthvað í framhaldinu og það er loksins að líta dagsins ljós núna.“

Verkið Hænuungarnir er mjög frábrugðið Belgísku Kongó þrátt fyrir að sömu menn séu þar á bak við. „Á meðan Belgíska Kongó gerist á elliheimili gerist þetta í fjölbýlishúsi og hverfist um húsfund sem er verið að halda vegna þess að komið hefur upp þjófnaður í sameigninni. Frosnum kjúklingum hefur verið stolið úr frystikistunni í geymslunni og það þarf að rannsaka það mál,“ segir Stefán. „En það má segja að þetta fjalli um fólk sem múrar sig inni í fílabeinsturni. Þetta er ákveðin útlistun á týpum af ’68-kynslóðinni; fólki sem gefur sig út fyrir að vera víðsýnt og „líbó“ en er þröngsýnt og fordómafullt.“

Með önnur hlutverk fara Ragnheiður Steindórsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Örn Árnason, Friðrik Friðriksson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.