Innlent

Baltasar Kormákur ætlar að leikstýra Wahlberg

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Gert er ráð fyrir að tökur á bandarískri endurgerð myndarinnar Reykjavík Rotterdam muni hefjast í byrjun næsta árs. Baltasar Kormákur staðfestir í samtali við Vísi að Mark Wahlberg muni fara með aðalhlutverk í myndinni en sjálfur mun Baltasar leikstýra henni.

Kvikmyndaframleiðandinn Working Title Films mun framleiða myndina og segir Baltasar í samtali við Vísi að um sé að ræða einn flottasta framleiðandann í bransanum. Fyrirtækið hafi til dæmis framleitt myndir Cohen bræðra, Dead Man Walking, og Bridget Jones svo dæmi séu nefnd.

Baltasar Kormákur segir að vel geti verið að hluti myndarinnar verði tekinn upp á Íslandi en jafnframt sé verið að skoða nýja tökustaði í Bandaríkjunum. Hann býst ekki við að myndin muni skarta íslenskum leikurum. „Þeir eru náttúrlega í orginalnum," segir Baltasar Kormákur.

Baltasar segir að framleiðsla myndarinnar gæti kostað 45 milljónir bandaríkjadala sem samsvarar um 5,5 milljörðum íslenskra króna.

Þá hefur Baltasar Kormákur selt réttinn á endurgerð Mýrarinnar til Overtures framleiðandans og Baltasar mun taka þátt í framleiðslu myndarinnar.






Tengdar fréttir

Mark Wahlberg leikur í Reykjavík-Rotterdam

Hollywoodstjarnan Mark Wahlberg mun leika í endurgerð á myndinni Reykjavík-Rotterdam, að því er fullyrt er á vefnum Hollywood Reporter. Þar kemur fram að handritshöfundurinn Aaron Guzikowski muni skrifa handritið að enskri útgáfu myndarinnar en Baltasar Kormákur muni leikstýra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×