Lífið

Óskar eftir reynslusögum í bók

Skrifar um meðgöngu, fæðingu og getnað Andrea vonast eftir sem flestum reynslusögum fyrir bókina, sem kemur út næsta vor.
Skrifar um meðgöngu, fæðingu og getnað Andrea vonast eftir sem flestum reynslusögum fyrir bókina, sem kemur út næsta vor.

„Ég fékk hugmyndina fyrir fjórum árum, þegar ég var ófrísk að eldri stelpunni minni, og er búin að vera með bókina í maganum síðan,“ segir Andrea Björgvinsdóttir. Hún vinnur nú að bók um getnað, meðgöngu og fæðingu sem er áætlað að komi út næsta vor.

„Ég komst í samband við Ragnheiði Helgu Reynisdóttur, nýútskrifaða ljósmóður, í gegnum vinkonu mína. Hún mun vinna alla staðreyndavinnuna í bókinni þar sem ég er ekki fagmaður, en ég skrifa svo textann í kringum það. Þetta á að vera tímalaust uppfletti­rit, en jafnframt skemmtileg og opinská bók sem svalar þorsta þeirra sem eru að verða eða eru ófrískar,“ útskýrir Andrea. Hún er nú búsett í Kaupmannahöfn þar sem hún stundar söngnám, en hún er nú í fæðingarorlofi eftir að hafa eignast aðra dóttur sína, Eldeyju.

„Bókin verður líka uppfull af reynslusögum kvenna og ég vil endilega fá sem mest af sögum frá konum á öllum aldri til að velja úr. Þetta mega líka vera góð ráð eða frásagnir af einhverju fyndnu sem fólk hefur lent í. Þetta þurfa ekki að vera neinar langlokur og ég er opin fyrir öllu. Það ríkir algjör trúnaður og ég hef bara samband við þær konur sem ég vel sögur frá, en þær þurfa ekki að koma fram undir nafni frekar en þær vilja,“ segir Andrea.

Aðspurð segir hún að handritið verði tilbúið 1. nóvember og vonast eftir sem flestum reynslusögum á næstu tveimur mánuðum í gegnum andrea.bje@gmail.com.

- ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.