Innlent

Margt ósmekklegt og rangt sagt um hjónaband okkar Kristjáns

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir MYND/GVA

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins hélt ræðu á landsfundi flokksins fyrir stundu en hún sækist eftir endurkjöri í embætti varaformanns. Hún sagði uppgjöf ekki vera til í orðabókum sjálfstæðismanna en hún var einnig á persónulegu nótunum. Ræddi hún meðal annars um hlutabréfakaup eiginmanns síns og kjaftasögurnar um hjónabandið. Hún sagði Steingrím J. vera hinn nýja Skattmann og að skikkjan hefði verið send með hraðpósti frá Bessastöðum.

Ræðu Þorgerðar var vel tekið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem nú fer fram í Laugardalshöll.

Hún ræddi um hlutabréfakaup Kristjáns Arasonar eiginmanns síns í Kaupþingi sem hann hafi tekið lán fyrir. Hún sagði kaupin hafa verið gerð með jákvæða sýn og framtíð bankans að leiðarljósi í byrjun árs 2008. Markmiðið hefði alltaf verið að eiga bréfin til lengri tíma og eignir hafi alltaf verið umfram skuldir í eignarhaldsfélagi Kristjáns þar til í aðdraganda bankahrunsins.

Ekki einu sinn innherji

Það félag hefði hinsvegar lent í miklum vanræðum eins og fleiri en þar verði farið að lögum eins og með öll önnur félög. Hún sagði einnig að rætt hefði verið um að Kristján hefði vitað um allar helstu ákvarðanir sem teknar voru í bankanum. „Þetta er rangt. Kristján var ekki einu sinni skráður innherji í bankanum og segir það allt um aðkomu hans að lykilákvörðunum í bankanum."

Hún sagðist sjálf heldur ekki hafa komið nálægt neinum ákvörðunum Ríkisstjórnarinnar er vörðuðu einstaka banka þó ákvarðanir viðskipta- og fjármálaráðherra hefðu stundum verið kynntar fyrir Ríkisstjórninni. „En þar við sat."

„Það er svo margt annað sem hefur verið sagt um hjónaband okkar Kristjáns sem er bæði ósmekklegt og rangt og ég ætla ekki að hafa eftir," sagði Þorgerður og bætti því við að landfundarfulltrúar hefðu rétt á því að vita þessa hluti.

Hún sagðist almennt gera skýran greinarmun á vinnu sinni og fjölskyldu og þar verði að vera hrein og klár skil. Hún hafi hinsvegar tekið að sér lítið hlutverk í kvikmyndinni um Skoppu og Skrítlu ásamt dóttur sinni sem væntanleg er í kvikmyndahús. „Ef fólki finnst það óeðlilegt þá tek ég það á mig. Ég er til í að fórna mörgu fyrir pólitíkina en enginn má taka það frá mér að gefa börnunum mínum fleiri gleðistundir."

Nýr skattmann

Þorgerður sagðist annars stolt af starfi sínu sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins og hún myndi sækjast eftir endurkjöri því hún vilji starfa áfram með því frábæra fólki sem er í flokknum. Hún sagði flokkinn ætla að berjast fyrir hugsjónum sínum og valdið væri fundarmanna. „Það sem ég legg í ykkar dóm eru verk mín, einlægni, heiðarleiki og viljinn til að gefast ekki upp."

Hún vék einnig orðum sínum að andstæðingum Sjálfstæðisflokksins. Hún sagðist trúa því að handan við hornið væri betra og heiðarlegra samfélag. En þangað kæmumst við ekki með höftum og einangrunarstefnu. Þangað kæmist flokkurinn ekki með vinstri stjórn við völd.

„Steingrímur J er hinn nýi skattmann, og ég veit að skikkjan var send með hraðpósti beint frá Bessastöðum. Skattmann er mættur aftur, varið ykkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×