Lífið

Sveppi settur í einangrunarklefa á Litla-Hrauni

Á litla-Hrauni. Sveppi og Auddi kíktu á Litla-Hraun í vikunni, gerðu „Innlit/Útlit“-úttekt á vistarverunum og spiluðu fótbolta við Hrottana, knattspyrnufélag fangelsins. Þá tóku þeir viðtal við mann sem hefur setið inni í tíu ár en er að losna á næstu dögum.
Á litla-Hrauni. Sveppi og Auddi kíktu á Litla-Hraun í vikunni, gerðu „Innlit/Útlit“-úttekt á vistarverunum og spiluðu fótbolta við Hrottana, knattspyrnufélag fangelsins. Þá tóku þeir viðtal við mann sem hefur setið inni í tíu ár en er að losna á næstu dögum.

„Þetta var kannski of lítill tími til að finna það á eigin skinni hvernig það er að vera fangi en þetta er samt ekki eitthvað sem ég myndi vilja prófa,“ segir sjónvarpsmaðurinn Sverrir Þór Sverrisson. Hann fór ásamt samstarfsfélaga sínum Auðuni Blöndal á Litla-Hraun og kynnti sér hvernig lífið gengur sinn vanagang á bak við lás og slá.

„Ég hafði ekki séð fangaklefa áður og þetta var óneitanlega mjög sérstök upplifun. Ég held samt að ég myndi frekar þola þetta en Auðunn,“ bætir Sverrir við.

Sverrir og Auðunn fóru um fangelsið í fylgd myndavéla og tóku upp hálfgert „Innlit/Útlit“-innslag um vistarverur fanganna. Sverrir lét meira að segja loka sig inni í einangrunarklefa og fór í sturtu, svo eitthvað sé nefnt. Hann segir að lífið á Litla-Hrauni sé töluvert frábrugðið því sem hann hafði gert sér í hugarlund. „Maður er kannski eins og flestir aðrir, heldur að fangelsið sé eitthvað í líkingu við Shawshank eða Prison Break og sumar spurningarnar urðu kannski svolítið barnalegar fyrir vikið,“ segir Sveppi og hlær.

Jafnframt var blásið til knattspyrnuleiks þar sem hið víðfræga knattspyrnulið Litla-Hrauns, Hrottarnir, atti kappi við þjóðþekkta fjölmiðlamenn. Sverrir segir að þeir hafi verið ágætlega mannaðir en vill lítið gefa upp um úrslit leiksins, þau eigi þó eftir að koma á óvart. „Við vorum með nokkra góða og aðra ekki eins góða,“ segir Sverrir en í síðarnefnda hópnum nefnir Sverrir sérstaklega Loga Bergmann Eiðsson.

„Hann er stór og sterkur en hefði mátt vera duglegri að mæta á æfingar þar sem boltameðferðin var lögð til grundvallar.“ Af öðrum í sjónvarpsliðinu má nefna Þorstein J. Vilhjálmsson, Ara Edwald og Atla Albertsson. Auk Auðuns og Sverris. „Auðunn er mikill keppnismaður og þolir ekki að tapa, hann gleymdi þess vegna stundum við hverja hann var að spila.“

En ferðin var ekki eingöngu grín og glens enda segir Sverrir að ekki megi gleyma því að menn eru á Litla-Hrauni af einhverri ástæðu. „Þetta eru auðvitað dæmdir menn og þó svo að menn geti verið léttir á því er það nú samt alltaf þannig að klefunum er lokað klukkan tíu á kvöldin,“ útskýrir Sverrir en meðal viðmælenda í þættinum á föstudagskvöld er maður sem hefur setið inni í tíu ár. „Hann er að losna bráðum og sagði okkur frá dvöl sinni á Litla-Hrauni, hann kemur ekki fram undir nafni enda er hann að hefja nýtt líf.“

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.