Innlent

Einn vildi verða forseti BNA

Óskir hengdar upp Um hundrað óskir bættust við þær þrjátíu þúsund sem Skoppa og Skrítla hafa safnað víða um heim í nokkur ár. Fréttablaðið/GVA
Óskir hengdar upp Um hundrað óskir bættust við þær þrjátíu þúsund sem Skoppa og Skrítla hafa safnað víða um heim í nokkur ár. Fréttablaðið/GVA

Óskabrunnur barnanna sló í gegn þegar þær Skoppa og Skrítla vígðu hann í Borgarleikhúsinu í gær. Vígslan var hluti af Alþjóðlegri athafnaviku og gerðu börnin, sem voru á aldrinum fjögurra til sjö ára úr þremur skólum á höfuðborgarsvæðinu, verkefni tengd því hvað þau vilji verða þegar þau verða stór.

Óskabrunnurinn er þannig gerður að börnin ganga inn í hann og hengja óskir sínar í klemmur á hann innanverðan. Að því loknu settust þau umhverfis brunninn, lokuðu augunum og hugsuðu um óskirnar.

Nokkur barnanna vildu verða veiðimenn, læknar, lögreglumenn og einn drengur vildi verða forseti Bandaríkjanna. Börnin sungu nokkur lög með þeim Skoppu og Skrítlu en fengu síðan í heimsókn nokkra einstaklinga sem kynntu störf sín fyrir börnunum. Þar á meðal var lögregluþjónn, hjúkrunarfræðingur, slökkviliðsmenn, vörustjóri hjá stoðtækjafyrirtækinu Össuri og fjölmiðlakonan Eva María Jónsdóttir.

Hundur sem hundasnyrtir mætti með á vígsluna vakti óskipta athygli barnanna.- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×