Lífið

Aldrei fór ég suður í gröfuskemmu

Ný skemma. Nýja skemman sem verður notuð á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður.
Ný skemma. Nýja skemman sem verður notuð á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður.

„Þetta er fjórða húsið sem við erum í. Við höfum aldrei verið lengur en tvö ár á sama staðnum,“ segir Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, rokkstjóri hátíðarinnar Aldrei fór ég suður sem verður haldin á Ísafirði um páskana í sjötta sinn.

Hálfdán og félagar hafa náð samkomulagi við verktakafyrirtækið KNH á Ísafirði um afnot af nýju húsnæði þess fyrir hátíðina.

„Þetta er mjög vítt og glæsilegt verkstæði með stórum hurðum. Það er hátt til lofts og vítt til veggja,“ segir hann. „Við vorum í fínni skemmu síðustu tvö árin og við þökkum kærlega fyrir afnotin af henni. Þetta er nýtt og KNH-verktakar eru þarna með aðstöðu fyrir sínar gröfur. Við höldum okkur í því þema að vera í iðnaðar­húsnæði við sjóinn. Það er reyndar flest við sjóinn á Ísafirði.“

Hátíðin verður haldin á föstudaginn langa, 10. apríl, og laugar­daginn ellefta. Alls hafa 32 hljómsveitir skráð sig til leiks, þar á meðal Dr. Spock, FM Belfast, múm, Mugison og Hemmi Gunn og Kraftlyfting. „Það hefur aldrei, að mínu mati, verið eins gott framboð af góðum heimaatriðum og núna. Helmingurinn er héðan úr héraði, meðal annars þrjár unglingahljómsveitir sem eru allar mjög frambærilegar. Það verður gaman að sjá þær spreyta sig,“ segir Hálfdán. „Það er upprunalega hugmyndin að baki hátíðinni, að landsþekktar poppstjörnur skemmti með minna þekktum mönnum.“- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.