Erlent

Silvio brattur þrátt fyrir skotleyfi

Óli Tynes skrifar

Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu segir að hann muni halda áfram að stjórna landinu og af enn meiri þrótti, eftir að hæstiréttur landsins svipti hann friðhelgi.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að lög sem tryggðu honum friðhelgi meðan hann gegnir embætti séu andstæð stjórnarskrá Ítalíu.

Það var eitt fyrsta verk Berlusconis að láta setja þessi lög, eftir að hann sigraði í kosningum á síðasta ári. Lögin urðu til þess að allnokkur dómsmál gegn honum voru lögð á hilluna.

Í einu málanna er Berlusconi sakaður um að hafa mútað breskum lögfræðingi til að bera falsvitni til þess að verja viðskiptaveldi sitt.

Hann hefur einnig verið sakaður um skattsvik og að reyna að múta þingmönnum stjórnarandstöðunnar.

Berlusconi sagði að lögin um friðhelgi væru nauðsynleg til þess að hann hefði tíma til þess að sinna embætti sínu og þyrfti ekki að standa í sífelldum málaferlum. Hann sagði einnig að dómsmálin gegn honum væru runnin undan rifjum vondra kommúnista.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×