Innlent

Fjölskylduhjálp Íslands lokar í sumar

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Ásgerður Jóna Flosadóttir.
Ásgerður Jóna Flosadóttir.
Fjölskylduhjálp Íslands lokar frá og með 24. júní til 12. ágúst. Ástæðan er sú að sjálfboðaliðar sem starfa við fjölskylduhjálpina þurfa frí eins og annað fólk. Fjölskylduhjálpin hefur farið fram á að ríkið styrki sig um hálft stöðugildi sem hefði getað haldið starfseminni gangandi í allt sumar. Ekki hefur verið orðið við þeirri bón.

„Já almáttugur, auðvitað hefðum við viljað sleppa því að loka. En þú verður að athuga það við erum öll í sjálfboðavinnu," segir Ásgerður Jóna Flosadóttir hjá Fjölskylduhjálp Íslands. Hún segir fjölskylduhjálpina hafa reynt að safna peningum fyrir hálfu stöðugildi. „Við hefðum þá getað haft opið í allt sumar en kannski tekið á móti færra fólki, en þó einhverjum," segir Ásgerður og viðurkennir að þörfin hafi í raun aldrei verið brýnni.

Hún segir að starf Fjölskylduhjálpar Íslands sé ekki metið að verðleikum. „Við erum að láta um 300 fjölskyldur fá mat sem dugir í allavega tvo daga. Svo ef við miðum við að 2,5 séu í hverri fjölskyldu, sem er hóflega áætlað, geturðu rétt ímyndað þér hversu margir njóta góðs af þessu."

Aðsóknin í fjölskylduhjálpina er gríðarleg að sögn Ásgerðar. „Það kom hálfpartinn til átaka við úthlutun í dag," segir Ásgerður.

Fjölskylduhjálpin fær tvær milljónir á ári frá Fjárlaganefnd alþingis og tvær milljónir frá Reykjavíkurborg sem rukkar að vísu fjölskylduhjálpina um 1300 þúsund krónur í húsaleigu á ári. Húsið sem Fjölskylduhjálpin notast við hafði þó staðið autt um nokkurt sinn þegar hún hóf að notast við það. Þá styrkti N1 Fjölskylduhjálpina um rúmar tvær milljónir á dögunum. Allir þessir peningar fara í matarkaup og segir Ásgerður það ekki koma til greina að nota þá til að greiða starfsmanni laun. „Það fer allur peningur í mat."

Ásgerður segir að útlitið sé dökkt fram undan, Fjölskylduhjálpin sé til að mynda búin að tæma lyfjasjóð sinn en vonast er til að peningar safnist í hann í fríinu.

Aðspurð hvert fólk geti leitað í sumar bendir Ásgerður á Rauða Krossinn, sem þó takmarki sínar heimsóknir við fjögur skipti á ári, og mæðrastyrksnefnd, sem hún telur þó að sé einnig á leið í frí. Hún segir því ljóst að aðgerða yfirvalda sé þörf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×