Innlent

Segir Icesave fyrirvarana niðurtætta

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður.
Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður.
„Mér sýnist að það sé búið að tæta dálítið niður einstaka af þeim fyrirvörum sem Alþingi setti fyrir samkomulaginu nú í sumar," segir Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður um Icesave samkomulagið sem skrifað var undir í hádeginu. Hann segir þó samkomulagið þó vera í skárri búningi en það hafi verið í upphafi. „En ekki finnst mér það nú gott," segir Ragnar.

Ragnar segir ákvæði, um að Íslendingar skuli efna til viðræðna við Breta og Hollendinga ef dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að Íslendingum hafi ekki borið skylda til að ábyrgjast innistæður í Icesave, vera stórgallað. „Venjulega þýðir það, að maður fái dóm um það að maður verði sýknaður af greiðslukröfu, að þá þarf maður ekkert að tala um hana meira. Þá er maður laus af skuldbindingunni. Hérna er þá um það að ræða að við höfum samið um greiðslu af kröfunni þó svo að við mótmælum greiðsluskyldunni. Og það er alls ekki ljóst af þessum texta hvaða niðurstöðu við getum knúið fram gagnvart Bretum og Hollendingum ef dómur gengur í þessa átt - eða ég get ekki séð það," segir Ragnar.

Þá segir Ragnar að það ákvæði sem kennt hafi verið við hann sjálfan og lúti að skiptingu á þrotabúi Landsbankans sé verulega útvatnað. „Það er núna í þessu nýja uppleggi lagt upp þannig að þessi regla sem ég hef talið að eigi að gilda verður viðurkennd að því tilskildu að það sé bæði niðurstaða íslenskra dómstóla og í samræmi við ráðgefandi álit sem komi frá EFTA dómstólnum," segir Ragnar. Alls óvíst sé hvort ráðgefandi álit fáist og ef það gerist ekki sé reglan úti. „Það er ekkert útilokað að það fáist en það er fjarri því að það sé sjálfgefið," segir Ragnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×