Lífið

Sakaðir um kosningasvindl

Sumir telja að Kris Allen sé ekki verðugur sigurvegari American Idol og að kosningasvik hafi tryggt honum sigurinn.
Sumir telja að Kris Allen sé ekki verðugur sigurvegari American Idol og að kosningasvik hafi tryggt honum sigurinn.

Stjórnendur American Idol hafa vísað á bug ásökunum um að Kris Allen hafi unnið keppnina með aðstoð kosningasvika.

Styrktaraðili keppninnar, AT&T, sendi starfsmenn sína til tveggja stuðningspartía fyrir Allen í Arkansas-ríki þar sem þeir létu viðstadda fá sérstaka síma sem geta sent tíu SMS-skilaboð í einu. Einn aðdáandi Allens sagðist hafa kosið hann 10.840 sinnum með einum af símunum. Stjórnendur AT&T hafa viðurkennt að hafa sýnt aðdáendum Allens hvernig ætti að kjósa hann en segja að það hafi ekki haft nein áhrif á úrslitin.

Stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar Fox, sem sýndi keppnina, eru á sömu skoðun og segja að enginn hafi á nokkurn hátt haft áhrif á útkomuna. Bættu þeir við að sjálfstæðir aðilar fylgdust grannt með því að atkvæðagreiðslan færi fram á löglegan hátt. „Fox og framleiðendur American Idol eru handvissir um að úrslit keppninnar voru sanngjörn, nákvæm og traust,“ sagði í yfirlýsingu frá Fox. „Kris Allen er, án nokkurs vafa, bandaríska Idolið. Við höfum innan okkar raða sjálfstæðan þriðja aðila sem fylgist með því að kosningin fari rétt fram.“

Margir urðu undrandi þegar Kris Allen vann keppnina því andstæðingur hans, Adam Lambert, var talinn mun sigurstranglegri, enda töluvert betri söngvari. Þrátt fyrir vangavelturnar telur Lambert að engin brögð hafi verið í tafli við kosninguna. „Það eru alls konar reglur í gildi sem koma í veg fyrir svindl. Ég held ekki að það hafi verið samsæri í gangi,“ sagði hann. „Mér finnst verið að gera úlfalda úr mýflugu. Nokkrir starfsmenn létu fólk fá nokkra síma og sýndu því hvernig á að nota þá. Þetta var alls ekkert samsæri.“

Þess má geta að Clay Aiken, sem lenti í öðru sæti í Idol 2003, gagnrýndi Lambert fyrir skömmu fyrir skerandi rödd sína. Hinn 27 ára Lambert skaut þá föstum skotum til baka. „Ég þekki ekki Clay,“ sagði hann. „Það er gaman að hann sé kominn í sviðsljósið aftur, því hann var þar ekki áður. Ef hann vill nýta sér velgengni mína er það bara gott fyrir hann.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.