Erlent

Ráðherrafrú lifir á kerfinu í Kaupmannahöfn

Óli Tynes skrifar
Fjölskyldufaðirinn ljúfi.
Fjölskyldufaðirinn ljúfi.

Hinn fimmtíu og sjö ára gamli Adnan Al-Assadi hefur danskan ríkisborgararétt. Hann býr hinsvegar í Bagdad þar sem hann er aðstoðar utanríkisráðherra Íraks.

Eiginkona hans og þrjú börn eru hinsvegar búsett í Kaupmannahöfn og eru þar á opinberu framfæri borgarsjóðs.

Helle Lykke Nielsen sem er einn helsti sérfræðingur Dana í málefnum Miðausturlanda segir að Al-Assadi sé moldríkur.

Hann sé mjög áhrifamikill og hafi ekki færri en hálfa milljón starfsmanna undir sér.

Auk þess að þiggja ráðherralaun fái hann himinháar greiðslur fyrir ýmis önnur störf og tíu prósenta þóknun fyrir verkefni sem utanríkisráðuneytið semji um. Hann sé því margfaldur milljónamæringur.

Danskur sérfræðingur í tryggingasvikum er yfir sig hneykslaður á þessu framferði ráðherrans. Yfirvöld verði að taka höndum saman um að stöðva þetta.

Danska Extra blaðið sendi ráðherranum tölvuskeyti þar sem spurt var um málið. Al-Assadi sagði í svari sínu að hann vildi gjarnan fá fjölskylduna til Írans.

Ef hún komi þangað muni hann gjarnan sjá fyrir henni. Í dönskum fjölmiðlum er þess ekki getið hvort eiginkonan sé dönsk né hvort hún vilji ekki flytja til Íraks.

Hvernig sem það er finnst Dönum að ráðherrann gæti nú vel séð af nokkrum krónum til þess að framfleyta fjölskyldu sinni, hvar sem hún svo býr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×