Innlent

Birkir Jón kýs með tillögu stjórnarinnar

Birkir Jón Jónsson
Birkir Jón Jónsson

Þriðji þingmaður Framsóknarflokksins hefur bæst í hóp þeirra sem hyggjast greiða atkvæði með tillögu meirihluta utanríkismálanefndar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Birkir Jón Jónsson, varaformaður flokksins, upplýsti samflokksmenn sína um það í gær að hann hygðist fylgja fordæmi Guðmundar Steingrímssonar og Sivjar Friðleifsdóttur í þeim efnum, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Birkir Jón vildi ekki staðfesta þetta við Fréttablaðið í gær. Hann sagðist hafa gert upp hug sinn til málsins og skoðun hans yrði ljós við atkvæðagreiðslu í þinginu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, boðaði skyndifund með þingmönnum flokksins á föstudag, rakleiðis eftir að þau Guðmundur og Siv höfðu lýst yfir stuðningi við tillögu meirihlutans í ræðustól þingsins að honum forspurðum. Fundinum var stuttu síðar frestað um óákveðinn tíma.

Fundurinn fór síðan fram í gær og mun Sigmundur hafa lýst yfir óánægju sinni með yfirlýsingar Guðmundar og Sivjar.

Með stuðningi Birkis Jóns er orðið nær einsýnt að tillagan um aðildarumsóknin hlýtur brautargengi. Minnst þurfa fimm til sex þingmenn Vinstri grænna að samþykkja hana, en líklegt þykir að þeir verði átta eða níu.

Nokkur kergja mun vera í grasrót Vinstri grænna vegna þess hversu margir þingmenn flokksins hyggjast styðja tillöguna.

Rætt var um Evrópumálin fram á kvöld á Alþingi í gær.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×