Innlent

Engin endurskoðun án mótmæla

Ingimar Karl Helgason skrifar
Almenningur þarf að sýna það í verki, með mótmælum, vilji hann að samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verði breytt. Viðræður ríkisstjórnarinnar einnar um endurskoðun samstarfsins dugi ekki til; sjóðurinn taki hins vegar mark á almenningi. Þetta segir Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, sem telur að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi einhliða sagt upp samstarfinu við Ísland.

Lilja telur að tafir á lánafyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem nú virðist vera að ganga í gegn, sé ekki hægt að túlka öðruvísi en sem einhliða uppsögn sjóðsins á samkomulaginu við Íslensk stjórnvöld. Lilja telur að sjóðurinn hafi ekkert lært af fyrri mistökum; eins og að eyða gjaldeyrisvarasjóði í vonlausa baráttu við að halda gengi stöðugu; en bannað sé að fara aðrar leiðir eins og til að mynda að skattleggja útstreymi fjármagns. Hún telur að efnahagsáætlunin sem gerð var fyrir um ári, hafi gert ráð fyrir mun minni skuldsetningu en komið hafi í ljós. Því vill hún að efnahagsáætlun sjóðsins og Íslands verði endurskoðuð. Þetta hafi komið til tals hjá stjórnarliðum; og reikna megi með því að óskað verði eftir endurskoðun áætlunarinnar, þegar mál okkar hefur verið tekið fyrir hjá sjóðnum.

„En ég er ekki svo viss um að efnahagsáætluninni verði breytt mikið nema að bæði stjórnvöld þrýsti á það og svo fólkið í landinu." Lilja segir að AGS líti þannig á veru sína hér að fólkið hafi kallað eftir honum. Reynsla annarra þjóða sýni að sjóðurinn sé viðkvæmur fyrir gagnrýni almennings. „Í formi mótmæla og annarra sambærilegra aðgerða." Ekki sé víst að þrýstingur ríkisins einn og sér dugi til þess að knýja fram breytta efnahagsstefnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×