Innlent

Verkefnin sliga ekki sýslumann enn

Fjármálakreppan þvingar sífellt fleiri í þrot og uppboðum fjölgar svo embættið hefur í nógu að snúast.Fréttablaðið/Stefán
Fjármálakreppan þvingar sífellt fleiri í þrot og uppboðum fjölgar svo embættið hefur í nógu að snúast.Fréttablaðið/Stefán

Þrátt fyrir að fyrir­sjáanleg sé fjölgun fjárnámsbeiðna og annarra verkefna hjá sýslumönnum var fjármagn til þeirra skorið niður í fjárlögum ársins.

„Fjárheimildir voru lækkaðar hér eins og annars staðar þegar fjárlögin voru ákveðin,“ svarar Sigríður Eysteinsdóttir, deildarstjóri hjá fullnustudeild Sýslumannsins í Reykjavík, spurð hvort embættið hafi fengið meira fjármagn eða fleira starfsfólk.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær gætu tafir hjá dómstólum og sýslumönnum nýst þeim sem hyggjast skjóta eignum undan kröfuhöfum með því að færa þær yfir á maka sína eða aðra. Slíkir gjörningar eru að hámarki riftanlegir í tvö ár. Fjölgun verkefna hjá sýslumönnum flýtir að sjálfsögðu ekki fyrir úrvinnslu slíkra mála.

Varðandi nýliðinn marsmánuð segir Sigríður að uppboðum hafi fjölgað en kveðst enn ekki hafa tekið saman yfirlit um önnur verk. Hún segir að þrátt fyrir minna fjármagn og aukin verkefni anni starfsfólk Sýslumannsins í Reykjavík því sem gera þurfi.

„Ég held að enn sem komið er sé það ekki farið að hafa áhrif að neinu leyti. Við höfum ráðið við allt sem við fáum inn.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×