Innlent

Líffæraígræðslur til Gautaborgar

Undirritun samnings Steingrímur Ari Arason, Álfheiður Ingadóttir og Marika Qvist undirrita samning um ígræðslu líffæra. Að baki þeim standa fulltrúar Sjúkratrygginga, Landspítala, heilbrigðisráðuneytis og Sahlgrenska-háskólasjúkrahússins.
Undirritun samnings Steingrímur Ari Arason, Álfheiður Ingadóttir og Marika Qvist undirrita samning um ígræðslu líffæra. Að baki þeim standa fulltrúar Sjúkratrygginga, Landspítala, heilbrigðisráðuneytis og Sahlgrenska-háskólasjúkrahússins.

Heilbrigðisyfirvöld hafa undirritað samning um ígræðslu líffæra við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg. Þetta þýðir að líffæraígræðslur Íslendinga flytjast frá Kaupmannahöfn til Gautaborgar um áramótin.

Samningurinn var gerður að ósk heilbrigðisráðuneytisins eftir að líffæraígræðslunefnd lagði til að gengið yrði til samninga við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið um líffæratöku og ígræðslu líffæra fyrir íslenska sjúklinga.

Með samningnum er íslenskum sjúklingum tryggður lágmarks­biðtími eftir ígræðslu líffæra. Biðtími samkvæmt honum er mun styttri en var í fyrri samningi og kostnaður við nýjan samning, miðað við tilteknar forsendur um þörf fyrir líffæri, er rúmar sex hundruð milljónir króna á ári.

Gert er ráð fyrir að samningurinn við Sahlgrenska verði um átján prósentum ódýrari en samningurinn sem nú er í gildi. Hann er gerður að undangengnum viðræðum við helstu sjúkrahús á Norðurlöndunum. Samningurinn gildir til ársins 2010 og er til eins árs í senn. Hann framlengist sjálfkrafa um ár sé honum ekki sagt upp sex mánuðum áður en hann á að renna úr gildi.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×