Innlent

Fær loksins að sjá skýrslurnar

Ólafur Þór ætlar nú að þaullesa skýrslurnar um gömlu bankana þrjá.
Fréttablaðið/daníel
Ólafur Þór ætlar nú að þaullesa skýrslurnar um gömlu bankana þrjá. Fréttablaðið/daníel

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari um bankahrunið, á von á því að verða kominn með skýrslur endurskoðunarfyrirtækjanna um gömlu viðskiptabankana í hendur í dag. Honum hefur hingað til verið neitað um aðgang að þeim vegna bankaleyndar, en í gær tóku gildi breytt lög um embætti hans sem rýmka valdheimildirnar.

Stóru endurskoðunarfyrirtækin unnu skýrslurnarnar síðasta haust fyrir Fjármálaeftirlitið og hafa þær fram að þessu verið sveipaðar leyndarhjúp. Fjölmiðlar hafa ekki fengið aðgang að þeim og Ólafur Þór ekki heldur. Öllum öðrum en Rannsóknarnefndinni um bankahrunið hefur verið svarað á þá leið að í skýrslunum sé of mikið af þagnarskyldum upplýsingum til að hægt sé að láta þær af hendi.

„Ég gerði ráðstafanir í dag [gær] til að nálgast þær [skýrslurnar] og við getum þá farið að rýna svolítið í þær og fóta okkur aðeins betur í þessu. Það er fyrsta skref," segir Ólafur Þór.

Ólafur segir að sér hafi borist nokkuð af ábendingum um saknæmt athæfi í aðdraganda bankahrunsins og hann hafi nú þó nokkur mál til rannsóknar, þar af nokkur umfangsmikil. Hann segist þó ekki geta tíundað nánar hvers eðlis málin séu. Þá fari einnig tími í það þessi dægrin að ráða nýtt starfsfólk til embættisins.- sh








Fleiri fréttir

Sjá meira


×