Innlent

Yfirfull fangelsi nú hættuástand

Í Fangelsi Norræna fangavarðasambandið hefur áhyggjur af alvarlegri stöðu fangelsismála hér á landi, bæði með tilliti til aðbúnaðar fanga og starfsfólks fangelsanna. Myndin er frá fangelsinu Litla-Hrauni á Eyrarbakka. Fréttablaðið/E.Ól.
Í Fangelsi Norræna fangavarðasambandið hefur áhyggjur af alvarlegri stöðu fangelsismála hér á landi, bæði með tilliti til aðbúnaðar fanga og starfsfólks fangelsanna. Myndin er frá fangelsinu Litla-Hrauni á Eyrarbakka. Fréttablaðið/E.Ól.



Notkun einangrunarklefanna til afplánunar gerir starfsumhverfi fangavarða hættulegt, segir Einar Andrésson, formaður Fangavarðafélags Íslands.

„Það er mjög erfitt að vinna við þær aðstæður sem skapast þegar komið er yfir 100 prósent nýtingu í fangelsunum og að geta þá ekki gripið til þeirra öryggistækja sem við höfum þó haft, það er að geta einangrað menn á stundinni og tekið þá úr umferð. Þetta þýðir að við höfum ekki lengur tök á því að einangra mjög hættulega fanga."

Norræna fangavarðasambandið hefur fjallað um alvarlega stöðu fangelsismála hér á landi. Það segir að ástandið valdi áhyggjum hjá norrænum fangavarðafélögum. Það hafi í för með sér óviðunandi vinnuálag á starfsfólk. Þrátt fyrir stöðuna hafi ríkisstjórnin ákveðið að fresta byggingu tveggja nýrra fangelsa í Reykjavík og á Litla-Hrauni.

Kim Østerbye, formaður sambandsins, segir að nú sé farið að tvímanna einstaklingsklefa.

„Þetta hefur í för með sér óásættanlegt vinnuálag á starfsfólk, aukið stress og aukna hættu á veikindum," bætir hann við.

„Aðbúnaður í fangelsum á Íslandi gerir stöðuna enn alvarlegri, núverandi byggingar eru úreltar. Elstu fangelsin eru allt frá 1874. Við höfum skilning á því að Ísland er í miðri fjármálakreppu, en menn verða að halda sig við lágmarkskröfur um aðbúnað innan fangelsanna, bæði með tilliti til fanga og starfsfólks. Því ber ríkisstjórninni að endurskoða ákvörðun sína um uppbyggingu nýrra fangelsa," segir Østerbye.

Einar segir afar erfitt að sjá hvernig fangelsismálin eigi að ganga upp, ekki síst í ljósi boðaðs tíu prósenta niðurskurðar á næsta ári.

„Þá hefur Fangavarðaskólanum verður lokað vegna sparnaðar, þannig að ekki er hægt að mennta fleiri fangaverði í augnablikinu, bætir hann við. Stjórnmálamenn verða að horfast í augu við ástandið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×