Íslenski boltinn

Bjarni: Markið var kolólöglegt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stjörnumenn fagna sigri fyrr í sumar.
Stjörnumenn fagna sigri fyrr í sumar. Mynd/Valli
Bjarni Jóhannsson var ósáttur í leikslok eftir að hans menn lágu fyrir Fjölni í Grafarvogi. Bjarni vildi meina að annað mark Fjölnis hefði verið kolólöglegt og sagði það algjöran vendipunkt í leiknum.

"Markið er kolólöglegt. Það er hendi og þetta pirraði mína menn, við náðum ekki að halda nógu vel haus. Ég tel það vendipunkt leiksins og þetta bitnaði klárlega á okkur," sagði Bjarni í samtali við Vísi í leikslok.

"Okkar leikur var ekki nógu góður í fyrri hálfleik. Við urðum að gera töluverðar breytingar á liðinu fyrir leikinn og síðan meiðist Bjarki strax í upphafi leiksins. Mér fannst þetta því riðlast aðeins hjá okkur. Það var hræðilegt að fá á sig þetta mark sem var afar klaufalegt af okkar hálfu en við mætum síðan dýrvitlausir í síðari hálfleik og Maggi bætti vel fyrir sín mistök í fyrri hálfleik með markinu. En síðan kálaði þetta annað mark leiknum að mínu mati," bætti Bjarni við.

Í Stjörnuliðið vantaði þrjá mikilvæga menn. Þeirra besti maður í sumar Steinþór Freyr Þorsteinsson var meiddur ásamt markahæsta manni deildarinnar Arnari Má Björgvinssyni. Þá var Tryggvi Bjarnason einnig meiddur. Bjarni sagði að þetta hefði auðvitað sett strik í reikninginn fyrir ungt og óreynt Stjörnuliðið.

"Það kemur í ljós eftir helgi hvernig er með meiðslin hjá þessum mönnum en það tekur auðvitað smá tíma að smyrja algjörlega reynslulausa menn inn aftur. Mér fannst þeir standa vaktina ágætlega í kvöld og þeir eru reynslunni ríkari. Við skulum bara vona að það verði gott veður um helgina og þeir meiddu teygi vel á og svo sjáum við til á mánudaginn," sagði þjálfari Stjörnunnar Bjarni Jóhannsson í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×