Lífið

Ekki í samkeppni við Palla

Eyjólfur heldur Eurovision-kvöld á sama tíma og Páll Óskar Hjálmtýsson.
Eyjólfur heldur Eurovision-kvöld á sama tíma og Páll Óskar Hjálmtýsson.

Eyjólfur Kristjánsson ætlar að gera sér lítið fyrir og halda Eurovison-kvöld á sama tíma og Páll Óskar heldur sitt árlega Eurovision-ball á Nasa. Hann er hvergi smeykur og vísar því á bug að hann sé í samkeppni við Palla.

„Við lítum ekki á þetta sem samkeppni. Við töluðum okkur saman um þetta og við erum líka að stíla inn á mismunandi markhópa. Nasa er heldur ekki að fara í neina samkeppni, það er alltaf troðið þar út úr dyrum,“ segir hann.

Partí Eyjólfs verður á skemmtistaðnum Batteríi sem er þar sem Organ var áður til húsa, steinsnar frá Nasa. Þar starfar hann sem skemmtanastjóri og gestgjafi. „Maður tekur á móti fólki og passar upp á að það líði öllum vel og allir fái góða þjónustu.“

Húsið verður opnað klukkan 23, skömmu eftir að atkvæðagreiðslunni lýkur í Eurovision, og aðgangseyrir er enginn. Á svið stígur Eyjólfur með eigin Eurovision-lög, auk þess sem Stefán Hilmarsson syngur með honum hið sígilda lag, Nína.

Sú uppákoma verður um klukkan eitt til hálftvö í nótt en um hálfþrjú stökkva þeir yfir á Nasa og endurtaka leikinn, eins og þeir hafa gert undanfarin ár. En hvernig telur Eyvi að Jóhönnu Guðrúnu gangi í kvöld?:

„Ég segi að hún lendi í ellefta sæti og þá er ég að reyna að vera svartsýnn. Mér finnst hún standa sig hrikalega vel, er mjög ánægður með hennar frammistöðu. Ég vona að hún lendi ofar en ég ætla að segja ellefu til að vera raunsær.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.