Lífið

Algjör metsala á bókamarkaðinum í ár

Aldrei hafa fleiri bækur selst en núna og þegar eru farnar hundrað og fimmtíu þúsund bækur.
Aldrei hafa fleiri bækur selst en núna og þegar eru farnar hundrað og fimmtíu þúsund bækur.

„Aldrei séð annað eins. Mesta sala sem við höfum upplifað,“ segir Kristján B. Jónasson formaður Félags íslenskra bókaútgefenda. Bókamarkaðurinn í Perlunni sem nú er yfirstandandi hefur slegið í gegn meðal landsmanna. Nú þegar hafa verið seldar hundrað og fimmtíu þúsund bækur. Að rúmmáli eins og tuttugu vörubílar. Kristján talar um þetta sem stórbrotið ævintýri hjá bókaþjóðinni sem kaupir bækur eins og hún hafi aldrei heyrt talað um að hér sé kreppa.

„Þetta eru skemmtilegar tölur. Þetta virðist lógískur framhandleggur á þeirri þróun sem verið hefur. Sala á bókamarkaði hefur verið að aukast jafnt og þétt, ár frá ári, undanfarið. En við upplifum það mjög sterkt að fólk virðist hafa meiri tíma. Er að vinna minna en áður. Áður heyrði maður að fólk vildi gjarnan lesa þetta og hitt en hafði ekki tíma til þess áður,“ segir Kristján.

Bókamarkaðurinn hefur verið við lýði allt frá árinu 1958. Sú breyting hefur orðið að bókabúðir og útgefendur hafa ekki haft rými til að hafa í boði alla þá titla sem þeir vildu. En á bókamarkaði er úrvalið frábært.

„Við reyndar verðum einnig vör við aukna sölu í bókabúðunum sjálfum,“ segir Kristján sem telur engan vafa á leika að lestur meðal Íslendinga sé mjög að aukast. Bókamarkaðurinn stendur í hálfan mánuð og lýkur á sunnudag.- jbg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.