Innlent

Meirihluti vill Samfylkingu og Vinstri græn í ríkisstjórn

Flestir, eða 54,2 prósent, vilja að Samfylking og Vinstri græn myndi ríkisstjórn eftir næstu kosningar, samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Næstflestir nefndu ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, eða 12,6 prósent. 9,6 prósent sögðust vilja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þá sögðust 6,7 prósent vilja að hér yrði mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Aðrir raunhæfir eða óraunhæfir valkostir höfðu mun minni stuðning.

Ekki er mikill munur á afstöðu fólks eftir kyni og búsetu. Þó eru heldur fleiri konur sem styðja áframhaldandi stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, eða 57,8 prósent á móti 51,3 prósentum karla.

Meðal kjósenda Framsóknarflokks vill stærsti hópurinn, 30 prósent, að mynduð verði ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Flestir sjálfstæðismenn, eða 36,3 prósent, eru því sammála.

Kjósendur Samfylkingar, Vinstri grænna og þeir sem ekki gefa upp stuðning við stjórnmálaflokk vilja hins vegar flestir að núverandi ríkisstjórn haldi áfram. 89 prósent samfylkingarfólks, 92 prósent Vinstri grænna og 59,7 prósent þeirra sem ekki gefa upp stuðning við flokk vilja áframhaldandi ríkisstjórn.

Af einstökum flokkum vilja flestir, eða 70,7 prósent, að Samfylkingin verði í næstu ríkisstjórn. 65,1 prósent vill sjá Vinstri græn í stjórn. 32,2 prósent vilja að Sjálfstæðisflokkur eigi aðild að næstu ríkisstjórn og 17,6 prósent vilja þar sjá Framsóknarflokk. Eitt til tvö prósent vilja sjá aðra flokka og um fimm prósent vilja einstaklinga utan flokka, þjóðstjórn eða einhverja nýja flokka í stjórn.

Hringt var í 800 manns 11. mars. Spurt var: Hvaða stjórnmálaflokka vilt þú að myndi ríkisstjórn eftir kosningarnar í vor? 59,8 prósent tóku afstöðu.

- ss /






Fleiri fréttir

Sjá meira


×