Innlent

Enginn útilokar beinlínis ESB-viðræður

Viðskiptaþing 2009. Evrópumál voru ofarlega á baugi hjá stjórnmálamönnum á viðskiptaþingi í gær, sem og eignarhald ríkis á fyrirtækjum og kreppan. Þorgerður Katrín gerði þó tekjuskatt einstaklinga að sérstöku umræðuefni.
fréttablaðið/stefán
Viðskiptaþing 2009. Evrópumál voru ofarlega á baugi hjá stjórnmálamönnum á viðskiptaþingi í gær, sem og eignarhald ríkis á fyrirtækjum og kreppan. Þorgerður Katrín gerði þó tekjuskatt einstaklinga að sérstöku umræðuefni. fréttablaðið/stefán

Enginn talsmanna þingflokkanna útilokaði beinlínis ESB-viðræður á næsta kjörtímabili, á viðskiptaþingi í gær. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, var einn um að lýsa miklum efasemdum sínum og telur að krónan kunni að gagnast Íslendingum best á næstu árum.

„Að minnsta kosti um sinn, á meðan við erum að reyna að komast út úr þessu með auknum útflutningi og verðmætasköpun, sem byggir á raunsætt skráðum gjaldmiðli,“ spurði hann. VG hefði ekki breytt um stefnu, en þegar málið kæmi til ákvörðunar, ætti að setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingar, sagði aðild að ESB vera mikið hagsmunamál: „Ég tel að Samfylkingin eigi að setja það sem skilyrði fyrir aðild sinni að næstu ríkisstjórn að aðildarviðræður að ESB hefjist á næsta kjörtímabili,“ sagði hann.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokks, sagðist vonast til þess að næsti formaður flokksins fengi umboð landsfundar hans til að fara í viðræður. „Við verðum að meta hlutina upp á nýtt,“ sagði hún.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknar, sagði stefnu flokksins skýra: „Afstaðan er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru,“ sagði hann. Sigmundur spurði þá Steingrím nánar út í hans afstöðu; hvort hann útilokaði stjórnarsamstarf við Samfylkinguna, setti hún Evrópumál að skilyrði. Steingrímur svaraði því ekki játandi en vildi þó vara Samfylkingu við að setja skilyrði.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður frjálslyndra, sagði þjóðina eiga að svara spurningunni um ESB í atkvæðagreiðslu. Skilyrði flokksins væru skýr: að halda í auðlindir þjóðarinnar.

- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×