Lífið

Fríar ferðir eru óraunhæfar

Búast má við færri Íslendingum á Hróarskelduhátíðina í ár vegna kreppunnar.
Búast má við færri Íslendingum á Hróarskelduhátíðina í ár vegna kreppunnar.

Skipuleggjendur Hróarskelduhátíðarinnar í Danmörku íhuga að bjóða Íslendingum og Svíum ókeypis ferðir á hátíðina vegna efnahagskreppunnar. Svíar kaupa um 5-10 þúsund miða á hátíðina á ári hverju og Íslendingar um tvö þúsund og því yrði það mikill missir ef þeir kæmust ekki í ár.

Á dönsku fréttasíðunni MetroXpress er viðtal við talsmann Hróarskelduhátíðarinnar. Þar segir hann að þar sem ekki sé hægt að gefa Íslendingum og Svíum afslátt af aðgöngumiðum á hátíðina séu viðræður í gangi við flug- og rútufélög um að þau flytji þangað gesti frá löndunum án endurgjalds.

Tómas Young, tengiliður hátíðarinnar hér á landi, segir að ekkert samband hafi verið haft við sig vegna málsins. „Ég held að þetta sé óraunhæft. Það er miklu meira að veði hjá þeim að reyna að fá Svíana og þeir eru líka nær þeim. Flugið frá Íslandi kostar í minnsta lagi 40 þúsund. Ég held að þetta sé of gott til að vera raunhæft,“ segir hann. „En ef það eru til einhver ráð til að hægt væri að framkvæma þetta væri það frábært.“

Hann segir að áhuginn á hátíðinni hafi aukist að undanförnu, sérstaklega eftir að byrjað var að tilkynna hvaða hljómsveitir taka þátt. Á meðal þeirra verða Oasis, Coldplay, Madness, Röyksopp, Nine Inch Nails og Hjaltalín. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.