Íslenski boltinn

Gunnleifur: Spila með HK ef ekkert breytist

Elvar Geir Magnússon skrifar
Gunnleifur í landsleik gegn Hollandi.
Gunnleifur í landsleik gegn Hollandi. Nordic photos/AFP

„Ef ekkert gerist í mínum málum á næstu dögum þá byrja ég bara að spila með HK í þessum mánuði," segir landsliðsmarkvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson. Kópavogsliðið lánaði Gunnleif til Vaduz í vetur en hann verður aftur orðinn löglegur með HK þegar félagaskiptaglugginn opnar þann 15. júlí.

Það eru þó nokkur járn í eldinum hjá Gunnleifi og erlend lið hafa sýnt honum áhuga. „Ef ég verð ekki kominn út þegar glugginn opnar þá byrja ég bara að spila með HK. Fótbolti er það skemmtilegasta í heimi," segir Gunnleifur sem er að æfa með HK-ingum um þessar mundir.

„Umboðsmaðurinn minn hefur fengið fyrirspurnir um mig og við erum bara að vinna í þessum málum. Lið á meginlandinu og Norðurlöndunum hafa sýnt áhuga. Þangað til þetta kemst á hreint þá er best að vera ekkert að tala mikið um þetta," segir Gunnleifur sem vonast eftir því að komast aftur út í atvinnumennskuna.

„Auðvitað vill maður spila úti, það er engin spurning. En ég tek þessu bara eins og er, held áfram að vinna og er jákvæður. Ég tek þessu öllu með æðruleysi og rólyndi."

HK-ingar féllu úr efstu deild í fyrra og eru sem stendur í fimmta sæti 1. deildar, fimm stigum frá öðru sætinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×