Innlent

Auðveldara að verða forseti Íslands en formaður VR

Breki Logason skrifar
Lúðvík Lúðvíksson formannsframbjóðandi í VR.
Lúðvík Lúðvíksson formannsframbjóðandi í VR.

Lúðvík Lúðvíksson sem ætlar að bjóða sig fram til formanns VR segir að nú sé búið að setja saman lista sem skilað verði inn í fyrramálið. Hann segir núverandi formann og trúnaðarráð eiga von á alvöru mótframboði en einfaldara sé að bjóða sig fram til forseta Íslands en til formanns í VR. Hann gagnrýnir hversu knappur tími sé til kosninga. Þær fara fram 23.febrúar.

„Bæði Halldór Grönvold og Gunnar Páll höfðu nefnt við mig að kosningar gætu farið fram 10.mars. Það var hinsvegar aldrei staðfest en ég var ánægður með hversu lengi kosningaglugginn væri opinn og fannst þetta eðlilegur tímarammi. Þær fara hinsvegar fram 23.febrúar sem er mjög knappur tími," segir Lúðvík í samtali við Vísi.

Hann segir tæplega 28 þúsund félagsmenn í VR og erfitt verði því að fara í fyrirtækin og kynna sig og sinn lista. Hann segir að hópur sem unnið hafi að framboðinu sé nú búinn að setja saman lista. Hann samanstendur af Lúðvíki sem formannsefni, þremur einstaklingsframboð og svo fjórum í svokallaðri listakosningu ásamt 82 trúnaðarráðsmönnum.

„Þessu skilum við inn í fyrramálið og þá erum við komin með raunverulegt mótframboð. Það þarf 300 stuðningsmenn við þennan lista og 40 undirskriftir fyrir þá sem eru í einstaklingsframboðinu. Það er því trúlega einfaldara að ná sér í stuðningsmenn til þess að verða forseti Íslands en að fara fram í félaginu VR, sem á eingöngu að snúast um hinn almenna félagsmann," segir Lúðvík en hópurinn er búinn að safna tæplega 400 stuðningsmönnum við listann.

Aðspurður hvernig hann haldi að kosningarnar fari segir Lúðvík ómögulegt að segja.

„Ég er búinn að fara víða og það er almenn óánægja hjá félagsmönnum. Maður vonar því að það verði manni sjálfum í hag og listanum. Aðal málið er auðvitað að listinn nái kosningu. Eina ástæða þess að Gunnar Páll situr þarna áfram er sú að trúnaðarráðið styður hann."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×