Lífið

Stökk inn í aðalhlutverkið

Svenni Þór, fyrrum Luxor söngvari, fer með hlutverk Hero í nýjum söngleik sem verður frumsýndur í Loftkastalanum á föstudaginn, 6. mars. Fréttablaðið/anton
Svenni Þór, fyrrum Luxor söngvari, fer með hlutverk Hero í nýjum söngleik sem verður frumsýndur í Loftkastalanum á föstudaginn, 6. mars. Fréttablaðið/anton

Rokkóperan !Hero verður frumsýnd í Loftkastalanum á föstudagskvöld. Fyrrum Luxor-söngvarinn Sigursveinn Þór Árnason fer með aðalhlutverkið en hann tók óvænt við því af félaga sínum úr strákasveitinni sálugu

„Það var hringt í mig fyrir um það bil tveimur vikum og spurt hvort ég gæti verið með," segir Sigursveinn Þór Árnason söngvari, eða Svenni Þór, sem fer með aðalhlutverk í rokkóperunni !Hero sem verður frumsýnd í Loftkastalnum á föstudagskvöld.

„Það var búið að ráða Edgar Smára Atlason í hlutverkið, en hann gat ekki verið með. Þetta var ákveðið á síðasta ári og fólk komst inn í gegnum áheyrnarprufur, en þegar það var haft samband við mig voru bara um þrjár vikur til stefnu. Ég náði að finna smá glufu fyrir þetta og hef bara verið að æfa frá sjö á kvöldin til miðnættis alla daga og um helgar, síðustu tvær vikurnar," útskýrir Svenni Þór sem hefur í mörgu að snúast því hann starfar sem verslunarstjóri Dressman í Smáralind og er í söngnámi í FÍH þar sem hann tekur fjórðastigspróf eftir páska. Í maí er hann svo að verða pabbi, en hann á von á sínu fyrsta barni með eiginkonu sinni Regínu Ósk Óskarsdóttur söngkonu.

Svenni Þór fer með hlutverk Hero í söngleiknum sem gerist í New York borg nútímans, í heimi þar sem Jesús hefur aldrei lifað. Hero fer að prédika fyrir borgarbúum að elska óvini sína og boðar nýtt líf, en það eru ekki allir tilbúnir að taka fagnaðarerindinu. Aðspurður segir Svenni söngleikinn vera eins konar nútímaútgáfu af Jesus Christ Superstar. „Tónlistin er náttúrulega öðruvísi, en lögin eru mjög skemmtileg, allt frá rokki og poppi upp í rapp.

Dansarnir eru líka flottir, svo fólk ætti endilega að kíkja á þennan nýja söngleik," bætir hann við, en miðasala er í fullum gangi á midi.is.

alma@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.