Innlent

Tvö hundruð prósent fleiri umsóknir um aðstoð

Jónas Þórir Þórisson, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar.
Jónas Þórir Þórisson, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar.
Beiðnum um aðstoð frá Hjálparstarfi kirkjunnar hefur fjölgað afar mikið fyrstu mánuðina á nýju ári. Umsóknum fjölgaði um 200% í febrúar. Í febrúar í fyrra bárust 139 beiðnir en í nýliðnum mánuði voru þær 410. Í janúar var fjölgunin 152% miðað við sama mánuð árið 2008. Haft er eftir Jónasi Þóri Þórissyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar, að mjög margir séu að sækja um í fyrsta sinn.

Jónas segir að mesta fjölgunin sé meðal fólks sem misst hafi vinnuna. Þar séu miðaldra karlmenn langfjölmennastir en mikil fjölgun er líka meðal einstæðra mæðra og einstæðra karla á örorkubótum. Þetta kom fram í máli Jónasar þegar Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, afhenti honum í dag 5,8 milljón króna framlag Samfélagssjóðs Alcoa í Bandaríkjunum til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfsins.

Fram kom hjá Jónasi að það væru þung spor fyrir marga að þurfa að leita sér aðstoðar og nauðsynlegt væri að þjóðfélagið breytti viðhorfi sínu til samfélagslegrar aðstoðar að núverandi efnahagsaðstæðum.

Tómas sagði að það væri mikilvægt að fyrirtæki sem væru aflögufær sýndu samfélagslega ábyrgð og létu fé af hendi rakna til að styðja þá sem farið hafa illa út úr þeim efnahagsþrengingum sem nú ganga yfir heiminn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×