Innlent

Ólga meðal framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi

Frá flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar.
Frá flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar.
Talsverðrar ólgu gætir meðal framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi vegna staðsetningar og fyrirkomulags kjördæmaþings þar sem frambjóðendur flokksins í komandi þingkosningum verða valdir. Flokksfélagi hefur dregið framboð sitt til baka og segir stjórn ráðsins reyna að tryggja stöðu Birkis Jóns Jónssonar og frambjóðanda á Austurlandi umfram aðra frambjóðendur.

Prófkjör með einn kjörstað

Kjördæmaþingið fer fram sunnudaginn 15. mars á Egilsstöðum og hafa allir flokksbundnir framsóknarnarmenn í kjördæminu atkvæðisrétt í þinginu. Guðlaug Kristinsdóttir, formaður Framsóknarfélags Akureyrar, segir að í rauninni sé um að ræða prófkjör í afar stóru kjördæmi með einungis einn kjörstað.

Í byrjun seinustu viku sendu formenn aðildarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu bréf til stjórnar kjördæmaráðsins þar sem óskað var eftir utankjörfundaratkvæðagreiðslu vegna kjördæmaþingsins. Kjördæmið sé afar víðfemt og kostnaðarsamt sé að ferðast langar leiðir. Að auki treysti margir sér ekki til að leggja í langferðir í vetrarfærðinni. Beiðni flokksformannanna var hafnað í gær.

Krafa um opnari flokk

Guðlaug segir að óánægja sé innan flokksins. Heppilegra hefði verið að þingið færi fram í miðju kjördæminu, til dæmis í Mývatnssveit.

Þá segir Guðlaug að tvær hliðar séu á öllum málum. ,,Það er krafa innan flokksins að hann sé opnari og að sem flestum flokksmönnum gefist tækifæri til að taka þátt og koma að ákvörðunum."

,,Að sjálfsögðu erum við ekki glöð en við unum þessari niðurstöðu," segir Guðlaug og bætir við að hún eigi von á því að Akureyringar og aðrir á framsóknarmenn á Eyjafjarðarsvæðinu fjölmenni á kjördæmisþingið á Egilsstöðum.

Dregur framboð sitt til baka

Bernharð Arnarson, bóndi að Auðbrekku í Hörgárdal, sem hafði áður lýst yfir framboði hefur dregið framboð sitt til baka. Ástæðan sé ólíðandi framganga stjórnar kjördæmisráðsins sem jafnframt sé studd af landsstjórn flokksins. Ákvarðanir hennar séu í andstöðu við jafnræðissjónarmið og samræmist ekki gildum Framsóknarflokksins. Bernharð segir að í stjórninni sitji fjórir Austfirðingar, tveir Eyfirðingar og einn Húsvíkingur.

Þá segir Bernharð augljóst að stjórnin geri allt til að tryggja stöðu ákveðinna frambjóðenda umfram aðra. ,,Það er altalað og vitað að Austfirðingar sækjast eftir sætum á listanum og að Austfirðingar eru stuðningmenn Birkis Jóns Jónssonar í fyrsta sætið."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×